Fréttir
  • Á hálendinu

Engin þjónusta á hálendisvegum á veturna

ekki er fylgst með ástandinu og því merktir ófærir

8.10.2014

Vegagerðin fylgist ekki með ástandi hálendisveganna á veturna. Á haustin eru vegirnir því skráðir ófærir. Eigi að síður geta vegirnir verið færir og þá mismunandi velútbúnum bílum. Lokun vega er annað en þá er umferð um þá bönnuð.


Hálendisvegir eru aðeins í þjónustu yfir hásumarið og utan þess tíma er færð ekki könnuð. Á haustin þegar snjóað hefur til fjalla, eru vegirnir merktir ófærir í varúðarskyni þar sem miklar líkur eru á að færð hafi spillst. Yfir veturinn er akstur á hálendisvegum að jafnaði ekki óheimill, séu menn á nægilega stórum tækjum en aksturinn er á ábyrgð ökumanns. Mikilvægt er að fara ekki út í óþarfa tvísýnu og hafa í huga að víða er takmarkað símasamband.  Nú er akstur eigi að síður bannaður á ákveðnum vegum vegna eldsumbrotanna og eins er akstur á hálendisvegum bannaður á vorin þegar frost er að fara úr jörð, til að koma í veg fyrir skemmdir á vegum og náttúru.

Að gefnu tilefni þá gefur umferðarþjónustan, sem svarar í síma 1777, ávalt þær upplýsingar á þessum árstíma að hálendisvegur sé ófær, þar sem að Vegagerðin þjónusti hann ekki og því ekki vitað um ástand hans. Bent er á muninn á því að vegur sé merktur ófær og að hann sé lokaður. Breyttir jeppar geta svo sem kunnugt er ekið á hálendinu þótt það sé ófært öllum venjulegum bílum og þess vegna óbreyttum eða lítið breyttum jeppum. Þannig er akstur ekki bannaður á ófærum hálendisvegi, nema það sé sérstaklega merkt þannig einsog núna vegna gossins í Holuhrauni og vegna þíðu á vorin.