Fréttir
  • Veglínur til skoðunar
  • Teigsskógur

Ákvörðun Skipulagsstofnunar verður kærð

Vegagerðin telur veglínu það breytta að um nýja framkvæmd sé að ræða

17.9.2014

Vegagerðin hefur ákveðið að kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að hafna því að ný veglína um Teigsskóg fari í mat á umhverfisáhrifum. Vegagerðin hafnar þeirri niðurstöðu Skipulagsstofnunar að þetta sé sama framkvæmd og telur að ný veglína sé það ólík fyrri línu og skerði Teigsskóg mun minna en fyrri áform þannig að um nýja framkvæmd sé að ræða.

Vegagerðin hefur í tillögu að matsáætlun sem lögð var fyrir Skipulagsstofnun kynnt nýja veglínu í gegnum Teigsskóg. Sú veglína er lausn sem Vegagerðin telur að geti samrýmst óskum heimamanna og gildandi skipulagsáætlunum. Vegagerðin telur að þessi nýja veglína sem kynnt hefur verið fyrir Skipulagsstofnun sé ný framkvæmd í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.  

Vegagerðin telur að úrskurður Skipulagsstofnunar frá árinu 2006 þar sem lagst var gegn leið B um Teigsskóg gildi aðeins um þá framkvæmd sem þá var kynnt enda felur hún í sér mun meiri umhverfisáhrif en núverandi áform þ.e.a.s. leið Þ-H. Sjá tillögu að matsáætlun hér. Sú framkvæmd sem þar er kynnt er á margan hátt ólík fyrri hugmyndum þótt um sé að ræða lagningu vegar á sama svæði. Lögð er til breytt lega vegar á þeim svæðum sem talin voru viðkvæm með tilliti til umhverfis í úrskurði Skipulagsstofnunar, þ.e.a.s. um Teigsskóg og þverun Djúpafjarðar, önnur tilhögun framkvæmda er fyrirhuguð og áhrif vegar á umhverfið verða öll mun minni.

Vegagerðin telur nauðsynlegt að Skipulagsstofnun taki til umfjöllunar þessi nýju áform og er þeirrar skoðunar að  það sé heimilt þar sem um nýja framkvæmd sé að ræða og úrskurðurinn frá árinu 2006 útiloki það ekki. Vegagerðin telur óhjákvæmilegt í framhaldinu að fengið verði úr því skorið hvernig túlka eigi lög um mat á umhverfisáhrifum að þessu leyti og hefur því ákveðið að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála enda er Vegagerðin ósammála lagalegum rökum Skipulagsstofnunar og því mati hennar að um sömu framkvæmd sé að ræða.