Fréttir
  • Bjarkalundur - Melanes

Matsáætlun vegna Bjarkalundar - Melaness

hefur verið send Skipulagsstofnun til formlegrar ákvörðunar

15.8.2014

Vegagerðin hefur sent Skipulagstofnun tillögu að matsáætlun fyrir framkvæmd á Vestfjarðavegi (60) á milli Bjarkalundar og Melaness til formlegrar ákvörðunar í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Drög að matsáætlun voru send umsagnar- og samráðsaðilum í júlí 2012 og hefur áætlunin verið endurskoðuð út frá ábendingum sem bárust.



Fyrirhuguð framkvæmd er á Vestfjarðavegi milli Bjarkalundar og Melaness við norðanverðan Breiðafjörð. Framkvæmdin er í Reykhólahreppi í Austur-Barðastrandarsýslu. Um er að ræða nýjan veg frá Bjarkalundi, um Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð að Melanesi í mynni Þorskafjarðar. Einn kostur í leiðavali er um Teigsskóg.

Núverandi vegur er 41,6 km langur en nýr vegur verður 19,7-21,7 km langur, háð leiðarvali.
Vegagerðin sendir hér með tillögu að matsáætlun fyrir framkvæmdina til formlegrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar í samræmi við 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Drög að tillögu að matsáætlun voru send umsagnar- og samráðsaðilum og auglýst á heimasíðu Vegagerðarinnar í júlí 2012. 

Tillaga að matsáætlun hefur verið endurskoðuð út frá þeim ábendingum sem bárust. 

Forsagan
Umhverfisáhrif viðkomandi vegarkafla hafa áður verið metin, þ.e. á árunum 2005-2009. Framkvæmdin var tilkynnt til Skipulagsstofnunar þann 8. nóvember 2005. Framkvæmdinni var skipt í 3. áfanga og voru lagðar fram tvær leiðir á 1. áfanga og 3 leiðir á 2. áfanga: B, C og D. Matsskýrslan bar heitið: Vestfjarðavegur nr. 60 Bjarkalundur - Eyri í Reykhólahreppi í Austur-Barðastrandasýslu. Skipulagsstofnun lagðist gegn vegalagningu um Teigsskóg en umhverfisráðherra sneri við þeirri ákvörðun. Hæstiréttur felldi í október 2009 úrskurð ráðherra úr gildi.

Sumarið og haustið 2011 hélt innanríkisráðherra fundi með hagsmunaaðilum. Á fundunum kom fram að íbúar á Vestfjörðum væru almennt sammála um að nýjan veg ætti að leggja á láglendi. Í kjölfarið ákvað Vegagerðin að leggja fram 3 leiðir, leið D1, H og I og meta umhverfisáhrif þeirra. 

Drög að tillögu að matsáætlun voru kynnt á vef Vegagerðarinnar í júlí 2012. Almenningur gat komið á framfæri athugasemdum og fyrirspurnum um matsáætlunina 

Í drögum að tillögu að matsáætlun kom fram að umhverfisáhrif veglínu B og B1 (um Teigsskóg) yrðu ekki metin. Hörð og rökstudd viðbrögð við ákvörðuninni bárust frá ýmsum aðilum sbr. kafli 1.6.2. Því hefur Vegagerðin í samráði við innanríkisráðherra ákveðið að leggja fram nýja veglínu Þ-H, sem er breytt lega um Teigsskóg. Vegna athugasemda við drög að tillögu að matsáætlun hefur einnig verið ákveðið að leggja fram veglínu A1, (sjá mynd).

Þær veglínur sem lagðar eru fram fylgja á köflum þeim leiðum sem áður var búið að leggja fram. Lega leiða hefur verið endurskoðuð í samræmi við athugasemdir sem bárust við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar 2005 og samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra dagsettum 5. janúar 2007. Þá hafnaði Vegagerðin hugmyndum um að vegurinn yrði lagður í jarðgöngum. Í þessu mati eru lagðar fram 2 leiðir, D2 og H, sem liggja í jarðgöngum undir Hjallaháls. Lögð er fram ný leið, I, sem þverar Þorskafjörð utan við Teigsskóg og liggur um Þorskafjörð að austanverðu. Einnig er lögð fram ný leið A1, sem þverar Þorskafjörð utar, milli Skálaness og Reykjaness og liggur svo inn með Þorskafirði að austanverðu. Í tengslum við leiðir A1 og I þarf að leggja tengingu í átt að Reykhólum.

Markmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum.