Fréttir
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum

Metaukning umferðar í júní

gríðarleg aukning í maí og júní

1.7.2014

Umferðin á Hringveginum jókst mikið í maí og júní eða um 6,4 prósent og 6,8 prósent. Þetta er mesta aukning milli júnímánaða síðan mælingar af þessu tagi hófust árið 2005. Umferðin hefur aukist mikið frá áramótum eða um 5,1 prósent og stefnir í fjögurra prósenta aukningu í ár.


Milli mánaða 2013 og 2014
Mikil aukning umferðar varð um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi í maí og júni sl. Umferðin jókst um 6,4% í maí og um 6,8% í júní.  Milli maímánaða er þetta mesta aukning síðan árið 2007 og milli  júnímánaða hefur umferðin aldrei aukist jafn mikið síðan þessi samantekt hófst. Umferðin jókst um öll landsvæði í báðum mánuðum og mest var aukningin um Austurland eða sem nam 11,1% í maí en 16,7% í júní.

Samanburdur-juni
Frá áramótum milli áranna 2013 og 2014
Núna er staðan þannig að umferðin hefur aukist um 5,1% frá áramótum og er það mesta aukning m.v. árstíma síðan árið 2007. Umferðin hefur aukist um öll landssvæði en mest um Austurland eða 8,4% en fast þar á eftir er Norðurland með 8,1% aukningu. Minnst hefur umferðin aukist um og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um 3,8%.

Horfur út árið 2014
Núna eru allar líkur á að umferðin árið 2014 verði talsvert meiri en á síðasta ári en lykilteljarar gefa vísbendingu um að aukningin verði í kringum 4%.  Ef þessi spá gengur eftir yrði þetta mesta aukning síðan árið 2007 þegar aukningin varð tæplega 7% milli ára (á þessum lykilstöðum). Vegagerðin hefur oft bent á mikla fylgni milli aukningar í vergri landsframleiðslu (hagvexti) og akstri á þjóðvegum. Þetta er alþjóðlega viðurkenndur rauntímamælikvarði á gengi þjóðarbúskap hvers lands. Það er því einnig afar forvitnilegt að fylgjast með þessum tölum í því samhengi.