Fréttir
  • Almenningar skýrsla

Leggur til sjálfvirkan vöktunarbúnað í Almenningum

niðurstaða vinnuhóps vegamálastjóra um aðgerðir við Siglufjarðarveg

26.3.2014

Vinnuhópur sem vegamálastjóri skipaði til að greina vandann í Almenningum á Siglufjarðarvegi vegna jarðskriðs og jarðhlaupa leggur til að settur verði upp sjálfvirkur vöktunarbúnaður. Hreinn Haraldsson vegmálastjóri segir ástandið hafa varað í áratugi en sífellt séu auknar kröfur um öryggi sem þarf að taka tillit til.

Þess vegna hafi vinnuhópurinn verið skipaður til að greina vandamál vegna þessa og koma með tillögur um hugsanlegar aðgerðir til að auka öryggi vegfarenda. 

Hreinn segir að ekkert sérstakt bendi til þess að þarna verði hlaup á næstunni enda er þetta þekkt ástand og fylgst er með því, viðhald er þó mikið en hugsanlegt er að færa veginn á nokkrum köflum. 

Auk vöktunarbúnaðarins leggur vinnuhópurinn til eflt eftirlit og færslu vegarins á köflum.

Verkefni vinnuhópsins var að vinna að gagnasöfnun og samantekt jarðtæknilegraúttekta á Siglufjarðarvegi um Almenninga og gera tillögur um áframhaldandi athuganir og leggja mat á hvort og hvers konar viðbragðsáætlun þurfi að vera til,vegna öryggis vegfarenda. Einnig skyldi hugað að möguleikum á aðgerðum svo sem færslu vegar.

Allt frá því að Siglufjarðarvegur um Almenninga var byggður árið 1968 hefur orðið vart við jarðskrið við veginn á 6 km löngum kafla frá vegamótum við Skarðsveg að Almenningsnöf. Á svæðinu hafa verið kortlögð 3 berghlaup; syðst er svonefnt Hraunaberghlaup en norðan við það er Þúfnavallaberghlaup og nyrst er Tjarnardalaberghlaup. Vegagerðin hefur mælt sigið á vegsvæðinu í Almenningum frá árinu 1982 og hafa mestar hreyfingar mælst í Tjarnardalaberghlaupinu. 


Engar tölulegarupplýsingar eru til um jarðskriðið fjær veginum ofar í berghlaupunum en út frá myndgreiningum og ummerkjum í landinu er þó vitað að berghlaupin eru öll á hreyfingu. Skriðið hefur valdið árlegum skemmdum á veginum á 9 svæðum en 6 af þessum svæðum eru í Tjarnardalaberghlaupinu þar af 2 á Skógasvæðinu og 4 milli Kóngsnefs og Almenningsnafar. 

Vinnuhópurinn telur að hætta geti verið á mjög miklu skriði eða jafnvel hruni vegstæðisins á fjórum svæðum milli Kóngsnefs og Almenningsnafar og einnig við Skarðsveg. Mikilvægt er að búnaður sé til staðar til að vara vegfarendur við slíkum atburði. Einnig er talið að vegfarendum geti stafað nokkur hætta af skemmdum á veginum þar sem skriðið er minna þar sem óvæntar ójöfnur á vegi geta ávallt verið varasamar.