Fréttir
  • Umferð að vetri til
  • Febrúar, spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum

Aukin umferð á Hringveginum í febrúar

mikil aukning frá áramótum

3.3.2014

Umferðin heldur áfram að aukast, í febrúar mældist hún 3,2 prósentum meiri en í sama mánuði í fyrra. Frá áramótum hefur umferðin aukist um 4,3 prósent. Verði umferðin í takt við spámódel Vegagerðarinnar má búast við mikilli aukningu í ár.

Milli febrúar mánaða 2013 og 2014:
Umferðin jókst um 3,2% í nýliðnum febrúar borin saman við sama mánuð árið 2013. Svo virðist sem mikil aukning í umferð eigi sér stað um Suðurland.  Annað árið í röð eykst umferð um Suðurland mjög mikið milli febrúarmánaða því á milli áranna 2012 og 2013 jókst umferðin um 10,3% en nú í ár um 9,1%. Þar áður hafði reyndar verið samfelldur samdráttur á sama tíma um nokkur ára skeið eða frá árinu 2010.Umferðin drógst hins vegar mikið saman á Hringvegi um Austurland eða um rúmlega 19%. Þetta er jafnframt mesti samdráttur á milli febrúarmánaða, um einstaka svæði, frá því að þessi samantekt hófst árið 2005. Freistast má að draga þá ályktun að þessi samdráttur eigi sér skýringar í óvenju slæmri færð á Hringvegi milli Akureyrar og Egilsstaða, en þegar tölur eru skoðaðar nánar er ekki síður og jafn mikill samdráttur í umferð á Hringvegi sunnan Egilsstaða.

Frá áramótum 2013 og 2014:
Þegar einungis tveir mánuðir eru liðnir af árinu 2014, kemur í ljós að umferðin hefur, í heildina, aukist um 4,3% frá áramótum á þessum 16 lykiltalningarstöðum á Hringvegi. Mest hefur umferðin aukist um Suðurland eða um 8% en aðeins á einu landssvæði hefur umferðin dregist saman, frá áramótum, og er það um Austurland. Þar er umferðin rúmlega 13% minni en hún var á sama tímabili á síðasta ári.


Samanburdur-februar













Horfur út árið 2014
Þegar einungis tveir mánuðir er liðnir af árinu 2014 eru líkur á að umferðin þetta árið geti orðið talsvert meiri en hún var á síðasta ári.Hafa skal í huga að enn er of snemmt að segja til um hverjar líkur séu á að þróunin verði í takt við það sem sjá má á meðfylgjandi línuriti.