Fréttir
  • Á Háreksstaðaleið

Fækkun mokstursdaga tekur gildi á mánudag

ráðstafanir nauðsynlegar til að ekki komi til lokunar

27.2.2014

Með tilliti til þeirra ábendinga sem Vegagerðinni hafa borist við fækkun snjómokstursdaga á leiðinni milli Egilsstaða, Mývatns og Vopnafjarðar og vegna skamms fyrirvara þá hefur verið ákveðið að bæta við mokstri næsta sunnudag, þ.e. að breyting um fækkun snjómokstursdaga tekur gildi frá og með mánudeginum 3. mars. 

Þessar ráðstafanir eru ekki gerðar í sparnaðarskyni.

Eins og fram hefur komið er ástæða þess að gripið er til þessa úrræðis er, að á  þessu svæði eru víða komin  djúp snjógöng og erfitt að halda þeim opnum, kóf í göngunum mikið og skyggni slæmt ef hreyfir vind. Við hvern mokstur hleðst upp snjór við hlið vegar, göngin dýpka og því verður erfiðara að opna aftur við næsta mokstur og því nausynlegt að fækka mokstursdögum tímabundið til að gera það mögulegt að halda leiðinni opinni eins og hægt er við þessar aðstæður.   

Vegagerðin stendur því frammi fyrir því að gera þessar ráðstafanir nú eða að þurfa að lenda í þeirri stöðu að ráða ekki við að halda leiðinni opinni. 

Staðan er sú í dag að á þessum svæðum eru stikur komnar í kaf, eins og áður segir er skyggni vegna snjókófs í snjógöngum mjög takmarkað og þá sérstaklega fyrir ökumenn fólksbíla og í því veðurfari sem nú ríkir fennir mjög ört í slóð snjómoksturstækjanna  þannig að færð spillist á skömmum tíma.   Samkvæmt veðurspám er ekki að sjá neinar stórvægilegar breytingar á næstunni, þó er einhver von að í lok næstu viku geti farið að slakna eitthvað á þessu ástandi. 

Vonum að þetta ástand vari sem styst, vonandi aðeins í 1-2 vikur. Um leið og hægt er verður hefðbundinn mokstur tekinn upp aftur.

Vegfarendur eru hvattir til að aka varlega, í snjógöngum skapast logn og þegar ekið er um þyrlast snjór upp þannig að skyggni getur orðið mjög lítið, það verður allt hvítt og ekki hjálpar að allar stikur eru á bólakafi.