Fréttir
  • Úr vefmyndavél
  • Háreksstaðaleið
  • Á Háreksstaðaleið

Snjómokstursdögum á Möðrudalsöræfum fækkað í bili

vegum lokað yfir nóttina

26.2.2014

Vegna mikils fannfergis á fjallvegum á Austurlandi er nauðsynlegt að fækka snjómokstursdögum á Fjöllum á leiðinni frá  Námaskarði austan Mývatns að Skjöldólfsstöðum sem og Vopnafjarðarheiði. Breyting þessi tekur gildi frá og með föstudegi 28. febrúar. 

Á þessu svæði eru víða komin djúp snjógöng og erfitt að halda þeim opnum, kóf í göngunum mikið og skyggni slæmt ef hreyfir vind. Við hvern mokstur hleðst upp snjór við hlið vegar, göngin dýpka og því verður erfiðara að opna aftur við næsta mokstur og þess vegna nauðsynlegt að fækka mokstursdögum tímabundið til að gera það mögulegt að halda leiðinni opinni eins og hægt er við þessar aðstæður.

Mokað verður á þriðjudögum og föstudögum. Gert er ráð fyrir að vegum verði lokað yfir nóttina enda getur á skömmum tíma fennt í snjógöng ef hreyfir vind. Reikna má með að lokað verði frá 19:30 til morguns og eins má búast við að vegirnir geti lokast alveg nema þá daga sem rutt er.

Svipað ástand er á Fjarðarheiði og í Oddsskarði og gæti þar einnig komið til einhverra takmarkana.

Þessi ákvörðun er ótímabundin en farið verður daglega yfir ástandið og það metið að nýju hverju sinni. 


Efsta myndin er tekin úr vefmyndavél og sýnir snjógöng ágætlega en er þó ekki alveg á þeim stað þar sem göngin eru hvað dýpst eða snjórinn hvað mestur. Hinar myndirnar eru teknar á Háreksstaðaleið og sýnir fannfergið að meðaltali, það er víða nokkuð meira en líka minna annarsstaðar.