Fréttir
  • Úr umferðinni í Reykjavík
  • Umferðin á höfuðborgarsvæðinu, spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðium

Mjög aukin umferð á höfuðborgarsvæðinu

meiri aukning en sést hefur lengi

7.2.2014

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt mælum Vegagerðarinnar, reyndist 4,6 prósentum meiri í janúar í ár en í sama mánuði í fyrra. Þetta er mesta aukning síðan árið 2009. Þetta er sterk vísbending um aukna umferð í ár en að jafnaði eru minni sveiflur í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu en á Hringveginum.

Mikil aukning varð í umferð um þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar innan höfuðborgarsvæðisins í nýliðnum janúar borið saman við sama mánuð síðasta árs eða um 4,6 prósent.

 


Svona mikil umferð hefur ekki mælst í janúar, í nefndum mælisniðum, síðan árið 2009. Mesta umferð í janúar yfir þessi þrjú mælisnið var árið 2008. Mesta aukning milli janúarmánaða milli ára var einnig árið 2008 en þá mældist janúar 8 prósentum stærri en sami mánuður árið 2007.
Mest jókst umferð um mælisnið á Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi eða um 6 prósent en minnst um snið á Hafnarfjarðarvegi sunnan Kópavogslækjar eða 3,5 prósent.

Að janúar mánuði liðnum árið 2012 spáði reiknilíkan Vegagerðarinnar með rúmlega 97 prósenta nákvæmni hver meðalumferð myndi vera fyrir allt það ár. Það má því segja að miklar líkur séu á að umferðin um höfuðborgarsvæðið verði talsvert meiri nú í ár borin saman við síðasta ár. Hafa verður þó allan fyrirvara á því á meðfylgjandi línu- og stöplaritum en næstu mánuðir munu skera úr um áreiðanleika spánnar.

Vegna þeirra miklu fylgni sem mælst hefur milli umferðar annarsvegar og landsframleiðslu hinsvegar, verður afar fróðlegt að fylgjast með þróun umferðar næstu mánuði.