Fréttir
  • Æfing á Hellisheiði
  • Æfing á Hellisheiði
  • Æfing á Hellisheiði
  • Æfing á Hellisheiði
  • Æfing á Hellisheiði
  • Æfing á Hellisheiði
  • Æfing á Hellisheiði
  • Æfing á Hellisheiði

Æft að taka niður víravegrið

Björgunarfólk og Vegagerðin æfði að taka niður vír og stoðir

7.2.2014

Vegagerðin hélt þann 6. febrúar æfingu með björgunaraðilum í því að taka niður víravegrið, víra og stoðir, til að auðvelda aðilum að athafna sig vegna slysa eða óveðurs. Æfingin tókst vel í sjálfu sér en niðurstaðan eigi að síður að stoðirnar sem halda vírnum uppi þyrfti að vera auðveldara að losa. 


Fjallað var um það í fréttum fyrr á þessu ári að björgunarsveitarmenn ættu erfitt með að athafna sig á Hellisheiði þar sem víravegrið skilur að akstursstefnur á 2+1 kaflanum. Einn kostur víravegriða er að þau á að vera auðvelt að taka niður. Vegna þessa bauð Vegagerðin aðilum að æfa það að taka niður víravegrið og kanna með því aðstæður.

Æfingin var á fimmtudagskvöld og var fjöldi björgunarsveitarmanna, slökkviliðsmanna, sjúkraflutningamanna og lögreglu mættir á heiðina. Auðvelt er fyrir tvo menn að taka niður sjálfan vírinn og einn maður ræður einnig við það ef þarf. Hinsvegar kom í ljós að stoðirnar eru fastari en vonast var til. Í ljós koma að frostið m.a. heldur nokkuð fast í stoðirnar. Vegagerðin hafði fyrir nokkru brugðið á það ráð að sprauta frauðplasti niður með stoðunum til að koma í veg fyrir að þangað bærist sandur, mold og vatn þar sem allt frysi saman í íslensku umhleypingaveðri. En frauðið dugir ekki til að stoðirnar séu alveg lausar undan þessu vandamáli.

Því þarf að huga að nýjum aðferðum eða breyttri tækni auk þess að menn þekki hvernig best er að ná stoðunum upp.

Það getur reynst nauðsynlegt fyrir björgunarfólk að komast á milli akreina, til dæmis, í vondu veðri ef bíll er fastur og röð hefur myndast fyrir aftan hann. Þá komast björgunarsveitarmenn ekki öðruvísi að til að losa bílinn. Þegar svona röð myndast í snjó dugir ekki vegöxlin til að komast framhjá. Sama á við ef slys ber að höndum og tækjabíll slökkviliðs þarf til dæmis að komast á vettvang. Þá skiptir tíminn líka miklu máli.

Áfram verður unnið að því að finna lausn á þessu máli.