Fréttir
  • Frá framkvæmdum við Álftanesveg

Hafnað að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins

Úrskurður héraðsdóms frá 4. febrúar

5.2.2014

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði þann 4. febrúar kröfu fjögurra náttúrverndarsamtaka um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins vegna framkvæmda við Álftanesveg. Áður hafi samskonar kröfu verið hafnað í máli varðandi lögbannskröfu samtakanna vegna vegalagningarinnar.


Tvö dómsmál eru í gangi varðandi Álftanesveg. Annarsvegar mál þar sem náttúrverndarsamtökin, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir, vilja fá hrundið ákvörðun sýslumanns um að synja lögbanni. Sýslumaður vísaði lögbannskröfu frá m.a. á þeirri forsendu að samtökin eigi ekki lögvarða hagsmuni og því ekki aðild að málinu. Samtökin höfðuðu því dómsmál til að fá ákvörðuninni hrunið. Í því máli var farið fram á að fá ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins en hvorttveggja héraðsdómur og Hæstiréttur höfnuðu því.

Hitt málið snýr að vegalagningunni sjálfri og lögmæti hennar á þeim grundvelli að umhverfismat og framkvæmdaleyfi séu ekki gild. Í því máli er einnig óskað ráðgefandi áits EFTA-dómstólsins. 

Í úrskurði sínum um þetta vitnar héraðsdómur til lögbannsmálsins: 

"Héraðsdómur hafði hafnað beiðni sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits. Í dómi Hæstaréttar kom fram að skuldbindingar Íslands á grundvelli svonefnds Árósasamnings, sem öðlast hefði gildi 2001, og tilskipunar 2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kynni að hafa á umhverfið skýrar og ótvíræðar og því væri ekki uppi sá vafi í málinu
að nauðsynlegt væri að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um þau efnisatriði sem beiðni sóknaraðila laut að. Vísaði Hæstiréttur í því sambandi til þess svigrúms sem Árósasamningurinn eftirléti aðildarrikjunum við að meta hvor af tveimur leiðum, stjórnsýsluleið eða dómstólaleið, hentaði betur i viðkomandi aðildarríki til að tryggja almenningi aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum og hvaða leið íslenski löggjafinn hefði valið í þeim efnum. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur um að hafna beiðni náttúruverndarsamtakanna um leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.

Að mati dómsins hefur dómur Hæstaréttar í máli nr. 677/2013 fullt fordæmisgildi fyrir málið sem hér er til meðferðar og málsatvik sambærileg."


Ljóst er að niðurstöðu í þessum málum er ekki að vænta alveg á næstunni.