Fréttir
  • Fannfergi getur verið mikið víða um land

Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar

vegfarendur kynni sér reglurnar

6.1.2014

Í tíð einsog þeirri sem verið hefur undanfarnar vikur þurfa vegfarendur að kynna sér þær reglur sem gilda um snjómokstur og aðra vetrarþjónustu á vegakerfinu. Þjónusta er mjög mismunandi mikil og nær mislengi fram á kvöld. Sólarhringsþjónusta er aðeins á fjölförnustu vegunum í nágrenni höfuðborgarinnar. 

Snjómokstursreglurnar má finna hér á vef Vegagerðarinnar en þær eru umfangsmiklar og má sjá hvaða kaflar eru hálkuvarðir og hverjir ekki og hversu lengi þjónustan varir á þeim dögum sem hún er til staðar.

Um það bil 5.000 km af 13.000 km vegakerfi Vegagerðarinnar er sinnt í vetrarþjónustu. Hún er mismikil og er tekið meðal annars mið af umferðarþunga. Þannig eru mestu umferðaræðarnar út frá Reykjavík með sólarhringsþjónustu. Þá eru kaflar sem eru með 7 daga þjónustu, aðrir með 6 daga og allt niður í þjónustu 2 daga í viku og einnig er misjafnt hversu lengi þjónustunni er sinnt fram á kvöldið.

Þannig getur skipt miklu máli fyrir vegfarendur hvenær þeir eru á ferð og hvar. Því er nauðsynlegt að kynna sér vel hvaða daga þjónustan er og hversu lengi.

Veður hafa verið erfið í vetur svo sem kunnugt er og vegfarendur sumir óvanir erfiðum aðstæðum. Mikilvægt er að hafa í huga að víða eru það einungis verstu kaflar sem eru hálkuvarðir og mismunandi hvort það er gert í hálku og flughálku eða bara í flughálku. Þannig að ökumenn geta ekki gert ráð fyrir hálkuvörðum vegum allsstaðar.

Þá hafa veður sett það mikið strik í reikninginn í vetur að ekki hefur verið unnt að sinna þjónustu alla daga eða hluta úr degi vegna veðurs og því afar mikilvægt að vegfarendur kynni sér veðurspá áður en lagt er í ferðalag. Upplýsingar má finna um nýjustu stöðu mála á heimasíðu Vegagerðarinnar eða hjá upplýsingaþjónustu Vegagerðarinnar í síma 1777.

Vegakerfið er langt á Íslandi. Mikil vetrarveður þýðir einnig að það er kostnaðarsamt að sinna vetrarþjónustunni. Vegagerðin berst núna, eins og stundum áður, við mikinn halla á vetrarþjónustunni sem hleypur á hundruðum milljóna króna. Þrátt fyrir skilning stjórnvalda á ástandinu þá er staða ríkisfjármála þannig að ekki er til ótakmarkað fé. Vegagerðin forgangsraðar því í vetrarþjónustunni rétt eins og á öðrum sviðum. Þess vegna er mikilvægt að ökumenn séu meðvitaðir um að ástandið á vegakerfinu getur verið mjög misjafnt eftir þjónustustiginu, eftir því hvernig veðrið er, eftir því hvaða tími sólarhringsins er eða eftir því hvaða vikudagur er.

Því er afar brýnt að vegfarendur kynni sér vel stöðuna áður en lagt er af stað.