Fréttir
  • Nýja víravegriðið í Súgandafirði
  • Nýja víravegriðið í Súgandafirði

Nýtt vegrið bjargaði þremur

rétt utan við eyðibýlið Laugar í Súgandafirði á Vestfjörðum

25.10.2013

Glænýtt vegrið bjargaði því að ökumaður sem missti stjórn á bíl sínum færi útaf og niður bratta hlíð á þriðjudaginn var. Vegriðið var nánast fullfrágengið en virkaði eins og ætlast er til.

Það var um kvöldmatarleytið þann 22. október að ökumaður missti stjórn á fólksbíl sínum í hálku á Súgandafjarðarvegi (65) á Vestfjörðum og lenti á glænýju víravegriði. Á þeim tíma var Rekverk ehf. að ljúka við  uppsetningu á víravegriðinu, sem er alls  2,4 km langt. Vegriðið var nánast fullbúið og virkaði eins og til er ætlast.  Þarna er hátt og bratt framaf niður í fjöru og mjög líklegt að vegriðið hafi bjargað því að bifreiðin, sem í voru tveir ungir menn auk ökumanns,  færi útaf. 


Þetta átti sér stað rétt utan við eyðibýlið Laugar í Súgandafirði. Þarna fór því betur en á horfðist. Það er mikilvægt að ökumenn haldi árvekni sinni sérstaklega núna þegar vetrarveður og vetrarfærð eru að ganga í garð. Það tekur alltaf tíma að stilla sig af frá sumarakstri yfir í vetrarakstur og því gott að vera meðvitaður um að aðstæður eru að breytast og þær geta breyst hratt.