Fréttir
  • Hreinn Haraldsson, Sigmundur Davíð Gunnlausson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Kristján L. Möller
  • Fjölmenni var við vígsluna
  • Heiðursverðir voru Einar Friðbjörnsson og Gunnlaugur Einarsson og skæravörður Anna Guðný Elísdóttir
  • Veisla Miklagarði
  • Hópknúsið
  • Veglínur sem komu til skoðunar, sú dökkrauða varð fyrir valinu
  • Nýi vegurinn - breiða rauða línan

Nýr vegur til Vopnafjarðar

var formlega opnaður 23. október

24.10.2013

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra opnaði formlega nýja tengingu við Vopnafjörð við hátíðlega athöfn við áningarstað á leiðinni rétt utan við bæinn. Um er að ræða 56 km vegagerð sem tengir Vopnafjörð við Hringveginn um Norðausturveg.


Norðausturvegurinn frá Hringvegi til Vopnafjarðar er 49 km langur en auk þess var lögð svo kölluð millidalaleið, eða Hofsárdalsvegur sem er sjö km langur. Hann tengir saman Hofsárdal og Vesturárdal. Nýi vegurinn liggur um Vesturárdal en áður lá tengingin við Vopnafjörð um Hofsárdal. Þessar vegabætur hófust 1998 með flutningi Hringvegar þar sem hann liggur framhjá Möðrudal á Fjöllum nær Vopnafirði. Í heild styttir nýi vegurinn leiðina til Egilsstaða um 18 km og til Akureyrar um 1 km.


Hreinn Haraldsson vegamálastjóri ávarpaði gesti á vígslustað og nefndi hversu mikil hátíðarstund það ávallt væri þegar nýir vegir væru opnaðir. Og hann minnti á að vegir væru ekki lagðir fyrir Vegagerðina, ekki heldur fyrir bíla heldur fyrir fólk og var þeim orðum vel tekið. Hanna Birna Kristjánsdóttir taldi rétt þar sem verkið hefði verið unnið á löngum tíma að fá fleiri til aðstoðar við klippinguna. Hún kallaði því til fyrrverandi samgönguráðherra, þingmenn kjördæmisins sem allir voru á staðnum, þar á meðal forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sér til fulltingis. Sjálf beitt hún skærunum fagmannlega en þetta var hennar fyrsta formlega vegaopnun.

Að þessu loknu var boðið til veislu í Miklagarði félagsheimilinu á Vopnafirði þar sem ungmenni úr grunnskólanum tóku á móti gestum og skemmtu, meðal annars með góðu knúsi þar sem vinavika stóð yfir í skólanum. Sjá má nemana knúsa forsætis- og innanríkisráðherra á myndinni sem fylgir þessari frétt.