Fréttir
 • Hreinn Haraldsson vegamálastjóri tekur við viðurkenningu frá vegamálastjórum Eystrasaltsríkjanna
 • Skirmantas Skrinskas vegamálastóri í Litháen opnaði ráðstefnuna
 • Frá opnun ráðstefnunnar
 • Algirdas Butkevičius forsætisráðherra Litháens flytur ávarp
 • Frá opnun ráðstefnunnar
 • Hreinn Haraldsson vegamálastjóri flytur erindi sitt
 • G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi flytur erindi sitt
 • Frá sýningunni
 • Bás Norræna vegasambandsins
 • Frá sýningunni
 • Frá sýningunni
 • Frá sýningunni
 • Frá sýningunni

Vel heppnuð ráðstefna

Vegamálastjóri heiðraður fyrir sitt framlag

30.8.2013

Vegamálastjóri var heiðraður á ráðstefnu Vegasambands Eystrasaltsríkjanna sem lauk á miðvikudag, fyrir framlag sitt til vegasambandsins. Náin samvinna hefur verið um áratugaskeið milli Eystrasaltsríkjanna og Norðurlandanna í gegnum Norræna vegasambandið. 

Það kom Hreini Haraldssyni vegamálastjóra þægilega á óvart að vera kallaður á svið á lokaathöfn 28. vegaráðstefnu sambands Eystrasaltsríkjanna þar sem honum voru færðar viðurkenningar sem þakklæti fyrir hans framlag til starfsemi vegasambands Eystrasaltsríkjanna. Ísland leiddi starf Norræna vegasambandssins árin 2008 til 2012, í fyrsta sinn í nærri 80 ára sögu þess. Því lauk með vegaráðstefnu í Hörpunni í fyrrasumar, samskonar ráðstefnu og vegagerðir Eystrasaltsríkjanna héldu í Vilnius í Litháen 26. – 28. ágúst.

Samstarf Eystrasaltsríkjanna, Litháens, Lettlands og Eistlands, og Norðurlanda hefur verið mikið undanfarna tvo áratugi. Norræna vegasambandið, NVF, og vegasamband Eystrasaltsríkjanna, BRA, hafa haft með sér samstarf og haldnar eru reglulega sameiginlegar ráðstefnur og námskeið til að miðla upplýsingum og þekkingu í vegagerð. Þegar Eystrasaltsríkin endurheimtu sjálfstæði sitt litu þau fyrst og fremst til Norðurlandanna sem fyrirmyndar í vegagerð.

Ráðstefnan í Vilnius þótti vel heppnuð en hana sóttu um 500 þátttakendur og meira en 1000 manns með öðrum gestum og sýnendum sem voru sérstaklega margir. Haldin voru um 120 erindi á ráðstefnunni þar af tvö frá Íslandi. Vegamálastjóri fjallaði um vegagerð og náttúruhamfarir á Íslandi og G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi fjallaði um starf sitt og upplýsingarmiðlun Vegagerðarinnar.

Erindin voru annars margvísleg á ráðstefnunni en ofarlega á baugi voru umferðaröryggismál, líkt og á öllum ráðstefnum um vegagerð, einnig viðhald, veghönnun, skipulag samgöngumála, umhverfismál, tölvutækni og stýring umferðar, vetrarþjónusta, vegyfirborð, brýr, rannsóknir og þróun og margt fleira.

Sjá heimasíðu ráðstefnunnar.