Fréttir
  • Núverandi Álftanesvegur

Framkvæmdir við Álftanesveg

Reynt hefur margsinnis á gildi framkvæmdaleyfis og mats á umhverfisáhrifum

20.8.2013

Verktaki hefur hafið framkvæmdir við nýjan Álftanesveg sem liggur meðal annars um Garðahraun. Mat á umhverfisáhrifum hefur farið fram og framkvæmdaleyfi veitt. 

Nýr Álftanesvegur hefur lengið verið í undirbúningi og var hafist handa að hluta til árið 2009 en stærri hluta verksins frestað vegna efnahagsástandsins. Nú er komið að því að ljúka því.

Verkið var boðið út 2012, tilboð voru opnuð 18. september, tilboð samþykkt 25. mars 2013 og skrifað undir samning þann 5. júlí síðastliðinn.

Ástæða þess að þetta langur tími leið á milli opnunar og samþykktar tilboðs var fyrst og fremst að útboðið var kært sem leiddi til þess að ekki var samið við lægstbjóðanda. Þá var einnig beðið var niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um framkvæmdaleyfi sem tafði undirskrift. Vegagerðin tilkynnti að þessu loknuverktakafyrirtækinu ÍAV hf. að gengið yrði til samninga um framkvæmdina en fyrirtækið var með næstlægsta boðið í verkið. Innanríkisráðherra óskaði eftir því í apríl að Vegagerðin og Garðabær færu aftur yfir framkvæmdina og var það gert en það leiddi ekki til breyttrar afstöðu.

Þetta tafði verkið en áður hafði mat á umhverfisáhrifum verið kært á þeirri forsendu að það væri fallið úr gildi. Framkvæmdaleyfi var einnig kært. Skipulagsstofnun hefur ítrekað farið yfir umhverfismatið og ætíð komist að þeirri niðurstöðu að það sé í gildi og ekki ástæða fyrir stofnunina að taka það upp aftur. Sama gildir um framkvæmdaleyfið. Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála úrskurðaði um framkvæmdaleyfið árið 2009 og hafnaði þá ógildingu þess. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vísaði síðan frá kæru vegna framkvæmdaleyfis í mars 2013.

Þannig hefur ítrekað verið látið reyna á gildi bæði mats á umhverfisáhrifum og framkvæmdaleyfis en niðurstaðan ætíð orðið sú að ekkert væri því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir.

Kæra fyrir dómstólum á hendur vegamálastjóra breytir því ekki. Þar sem á gildi mats á umhverfisáhrifum og framkvæmdaleyfis hefur margsinnis reynt og niðurstaða til þess bærra stjórnvalda liggur fyrir er ólíklegt að dómstólar komist að annarri niðurstöðu. Dómsmál tekur langan tíma og ef farið væri að kröfunni um að fresta framkvæmdum vegna dómsmálsins væri komin upp sú staða að hægt væri að kæra fyrir dómstólum hvaða framkvæmd sem er og þannig stöðva allar framkvæmir væri til þess vilji einhverra.

Þegar tilboð hafa verið opnuð er komin skuldbinding af hálfu verkkaupa að ganga að lægsta tilboði sem stenst kröfur. Þannig að þótt ekki hefði verið skrifað undir samning um verkframkvæmd er Vegagerðin bundin af því að taka lægsta gildandi tilboði hverju sinni. Þannig getur Vegagerðin ekki hætt við útboð eða frestað framkvæmdum þegar búið er að opna tilboðin nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Nýlegur dómur Hæstaréttar kveður á um skaðabótaskyldu ef hætt er við útboð jafnvel þótt tilboði hafi ekki verið tekið. Því telur Vegagerðin augljóst að verði frekari frestanir eða hætt við framkvæmdina skapist skaðabótaskylda.