Fréttir
  • Umferðin með spá út árið 2013
  • Umferðin eftir mánuðum

Umferðin eykst töluvert í júní

Umferðin á Hringveginum hefur aukist í öllum mánuðum utan apríl

1.7.2013

Umferðin á Hringveginum í júní jókst um 2,6 prósent frá sama mánuði í fyrra og er þetta töluvert mikil aukning á milli mánaða. Umferðin hefur þá aukist í öllum mánuðum á þessu ári utan apríl mánaðar á 16 völdum talningarstöðum Vegagerðarinnar. Nú má reikna með því að umferðin í ár aukist um 3,5 prósent sé tekið mið af spálíkani Vegagerðarinnar.

Milli mánaða 2012 og 2013
Umferð eykst á öllum landssvæðum nema í grennd við höfuðborgarsvæðið, en þar dregst umferð lítið eitt saman eða um 0,1%. Samtals eykst umferðin um 2,6% milli júnímánaða. Fram til þessa hefur umferð því einungis dregist saman í einum mánuði, það sem af er ári, eða í apríl. Leita þarf aftur til ársins 2009 til að finna meiri heildarumferð í þessum mælipunktum í júní. 
Líklegt verður að telja að léleg tíð í júní á höfuðborgarsvæðinu hafi valdið samdrætti þar og á móti góð tíð á Norður- og Austurlandi hafi orðið til þess að umferð eykst mest á þessum svæðum. Umferðin eykst um rúmlega 18% á Austurlandi (ath. taka þarf tillit til þess að lítið umferðarmagn er í mælipunktum um austurland því verða oft hlutfallslega miklar sveiflur á því svæði) og um 8% á Norðurlandi.

Samanburður


Milli ára 2012 og 2013
Frá áramótum hefur umferðin aukist í öllum mælipkt eða um 3,9%.  Þessi mikla aukning í umferð um Austurland í júní hefur valdið því að nú hefur umferð á því landssvæði skotist upp fyrir Suðurland með mestu hlutfallslegu umferðaraukningu frá áramótum eða 7,7% en umferðaraukningin um Suðurland fylgir þar fast á eftir með 7,1%.
Umferð hefur ekki aukist jafn mikið, frá áramótum, frá árinu 2007.


Horfur út árið:
Horfur eru nú á að akstur geti aukist um 3,5% á Hringveginum.