Fréttir
  • Fánaborg Vegagerðarinnar

Ný Vegagerð, framkvæmdastofnun samgöngumála

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri skrifar:

28.6.2013

Í dag, mánudaginn 1. júlí, tekur ný stofnun Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála, til starfa og á sama tíma einnig Samgöngustofa, stjórnsýslustofnun samgöngumála. Endurskipulagningin hefur átt sér nokkurn aðdraganda.

Með lögum um Vegagerðina var ákveðið að koma á fót stofnun sem sinni framkvæmdum og viðhaldi samgöngumannvirkja ásamt því að fara með eignarhald og sinna rekstri þeirra. Í fréttinni má lesa grein vegamálastjóra sem birtist í nýjasta hefti Framkvæmdafrétta.

Þann 19. nóvember 2012 samþykkti Alþingi lög um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála. Á sama tíma voru samþykkt lög um stjórnsýslustofnun samgöngumála, Samgöngustofu (áður nefnd Farsýslan). Ákveðið var að nýjar stofnanir skyldu taka til starfa 1. júlí 2013.

Endurskipulagning samgöngustofnana átti sér nokkurn aðdraganda, allt frá árinu 2008. Árið 2009 var ákveðið að hefja undirbúning að myndun tveggja stofnana:

1. Stjórnsýslustofnunar með sameiningu Umferðarstofu, Flugmálastjórnar og stjórnsýsluverkefna Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar.

2. Framkvæmda- og rekstrarstofnunar með sameiningu framkvæmda- og rekstrarverkefna Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar.

Með lögum um Vegagerðina var ákveðið að koma á fót stofnun sem sinni framkvæmdum og viðhaldi samgöngumannvirkja ásamt því að fara með eignarhald og sinna rekstri þeirra. Helstu breytingar með tilkomu nýrra stofnana hvað varðar Vegagerðina eru þær að frá „gömlu“ Vegagerðinni færast verkefni á sviði leyfisveitinga og umferðareftirlits yfir til Samgöngustofu. Við bætast verkefni Siglingastofnunar á sviði hafna, vita, sjóvarnargarða og leiðsögu- og eftirlitskerfa. Til að gera frekari grein fyrir verkefnum hinnar nýju stofnunar er hér vísað til upptalningar í lögum um stofnunina:

4. gr.

Almennt.

Vegagerðin skal vera ráðgefandi fyrir ráðherra, veita honum aðstoð við undirbúning að setningu laga og reglugerða á starfssviði sínu og aðstoða við stefnumótun og ákvarðanatöku í samgöngumálum. Vegagerðin tekur þátt í gerð samgönguáætlunar. Stofnunin mótar almenna stefnu og viðmið um byggingu, viðhald og þjónustu samgöngumannvirkja, annast forsendugreiningu og frumrannsóknir vegna þeirra, greinir og ber saman ólíka valkosti, gerir tillögu að forgangsröðun verkefna, frumhannar mannvirki og metur kostnað, arðsemi og umhverfisáhrif þeirra. Þá sér stofnunin um framkvæmd samgönguáætlunar, þ.e. verkhönnun framkvæmda, útboð verkefna, samninga við verktaka, eftirlit á framkvæmdatíma, skilamat og uppgjör. Vegagerðin skal annast upplýsingamiðlun um samgöngumál eftir því sem við á. Vegagerðin annast rekstur tölvu- og upplýsingakerfa er lúta að starfsemi stofnunarinnar. Vegagerðin tekur afstöðu til tillagna sem berast frá rannsóknarnefnd samgönguslysa.

5. gr.

Framkvæmdir og viðhald samgöngumannvirkja.

Vegagerðin annast uppbyggingu vega, sjóvarnargarða og leiðsögu- og eftirlitskerfa. Jafnframt hefur stofnunin umsjón með framkvæmdum við samgöngumannvirki og samgöngukerfi sem njóta beinna ríkisstyrkja. Vegagerðin annast viðhald þeirra mannvirkja sem hún fer með eignarhald á.

6. gr.

Eignarhald og rekstur.

Vegagerðin annast rekstur samgöngumannvirkja og samgöngukerfa og fer með eignarhald þeirra fyrir hönd ríkissjóðs. Í þessu sambandi sinnir stofnunin eða felur öðrum að sinna:

1. rekstri og umsjón vegakerfisins,

2. eftirliti með burðarþoli vega og brúa; og ákveður stofnunin takmarkanir á heildarþunga og ásþunga ökutækja, ef þörf krefur,

3. rekstri og viðhaldi vita og sjómerkja,

4. rekstri og viðhaldi leiðsögu-, vöktunar-, upplýsinga- og eftirlitskerfa,

5. rekstri Landeyjahafnar og ferjubryggja. Vegagerðinni er heimilt að taka að sér uppbyggingu, rekstur og viðhald flugvalla samkvæmt samningi við þar til bæra aðila.

7. gr.

Almenningssamgöngur.

Vegagerðin annast rekstrarverkefni ríkisins á sviði almenningssamgangna. Skal stofnunin m.a. annast:

1. útboð, gerð og eftirfylgd þjónustusamninga vegna almenningssamgangna,

2. umsjón með styrkveitingum vegna almenningssamgangna,

3. umsjón með ferjum og öðrum eignum ríkisins sem nýttar eru í almenningssamgöngum.

8. gr.

Samgönguöryggi.

Vegagerðin vinnur að auknu öryggi í samgöngum með því markmiði að fækka slysum og draga úr tjóni af völdum þeirra. Stofnunin skal m.a.:

1. vinna að bættu öryggi innviða samgöngukerfisins með öryggisstjórnun, greiningu á öryggisþáttum og slysum og aðgerðaáætlunum,

2. annast framkvæmd öryggisstjórnunar samgöngumannvirkja og samgöngukerfa,

3. annast ráðgjöf um umbætur sem stuðla að auknu samgönguöryggi.

9. gr.

Alþjóðlegt samstarf.

Vegagerðin tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi á starfssviði sínu eftir því sem kveðið er á um í lögum, alþjóðasamningum eða með ákvörðun ríkisstjórnar.

10. gr.

Rannsóknir og þróunarstarf.

Vegagerðin tekur þátt í og annast rannsóknir, greiningu og þróun á starfssviði sínu. Ráðherra skal setja reglugerð um hlutverk Vegagerðarinnar á sviði rannsókna, greiningar og þróunar.

11. gr.

Framsal verkefna.

Vegagerðinni er heimilt að framselja eða fela öðrum framkvæmd einstakra verkefna eða verkþátta á starfssviði stofnunarinnar.

 

 

Í athugasemdum við frumvarp til laga um Vegagerðina kemur fram hvaða markmið voru höfð að leiðarljósi við þessar breytingar á stofnunum samgöngumála: Markmiðin með endurskipulagningu samgöngustofnana eru fyrst og fremst faglegur ávinningur og skýrari verkaskiptingstofnana. Meginþættir faglegs ávinnings eru:

1. Að skýra verkaskiptingu og bæta þjónustu og árangur.

Aðgreining stjórnsýslu frá framkvæmdum og rekstri sem mætir innlendum og erlendum kröfum um gagnsæi og faglega og hlutlausa stjórnsýslu og tryggir að sambærilegar kröfur séu gerðar til framkvæmda og

rekstrar mannvirkja og annarra þátta samgöngumála.

2. Aukin samþætting þvert á samgöngugreinar sem endurspeglar áherslur samgönguáætlunar og leggur áherslu á hagkvæmni og virkni samgöngukerfisins fremur en þær leiðir sem bundnar eru einstökum samgöngugreinum.

3. Að auka faglegan styrk. Sérhæfing sem gefur færi á að efla vinnubrögð, fagmennsku og árangur, t.d. á sviði stjórnsýslu og framkvæmda.

4. Öflugri stofnanir sem stuðlar að meiri og breiðari sérfræðiþekkingu.

5. Sterkari yfirstjórn sem stuðlar að gæðum, hagkvæmni og markvissari þjónustu við notendur.

6. Tækifæri til frekari þróunar og endurskipulagningar starfseminnar.

7. Að auka hagkvæmni og bæta nýtingu þeirra fjármuna sem fara til samgöngumála.

8. Að samþætta betur þróun og rannsóknir á sviði samgöngumála.

9. Að tryggja markvissara samráð við hagsmunaaðila. Allt frá samþykkt laga um Vegagerðina hefur verið unnið að undirbúningi sameiningarinnar og mörg stór og lítil verkefni þurfti að leiða til lykta þannig að stofnunin gæti strax frá fyrst degi starfað eðlilega. Vonandi munu viðskiptavinir okkar, vegfarendur og sjófarendur, verktakar og ráðgjafar og aðrir hagsmunaaðilar svo sem sveitarfélög á landinu, ekki verða varir við mikla hnökra eða breytingar á þjónustu með tilkomu nýrrar stofnunar. Það er þó ljóst að sameining og samruni mun taka mun lengri tíma og áfram verður unnið að ýmsum þáttum næstu vikur og mánuði.

 

Á meðfylgjandi mynd má sjá það skipulag sem verður í gildi hjá nýrri Vegagerð frá 1. júli. Þessari framsetningu á skipuriti er ætlað sýna þá auknu áherslu sem ákveðið hefur verið að leggja á hugmyndafræði verkefnastjórnunar í starfsemi Vegagerðarinnar.

Sérstök athygli er vakin á eftirfarandi texta sem fylgir skipuritinu:

„Núverandi skipurit gildi þar til stofnunin hefur sameinast í eitt húsnæði og niðurstöður formlegrar stefnumótunarvinnu liggja fyrir. Framtíðarskipurit stofnananna byggi á niðurstöðum þeirrar vinnu og endurspegli rökin fyrir endurskipulagningu stofnana á sviði samgöngumála“. Fyrirhugað er að hefja stefnumótun fyrir nýja Vegagerð til framtíðar fljótlega og ekki síðar en strax eftir sumarfrí. Settur verður saman hópur starfsmanna sem mun vinna að framtíðarsýn og stefnumótun nýrrar Vegagerðar til lengri tíma litið. Sú skoðun sem stefnumótunarvinnan hefur í för með sér, getur leitt af sér breytingar á því skipulagi sem sýnt er á myndinni. Það er einnig í samræmi við vilja innanríkisráðuneytisins um að endanlegt skipulag taki mið af framtíðarsýn nýrrar Vegagerðar til lengri tíma litið eins og fram kemur í texta sem fylgir skipuritinu og kemur frá ráðuneytinu

Þann 1. júlí flytjast starfmenn leyfisveitinga úr Borgartúni 7 yfir til Samgöngustofu í Borgartúni 30. Starfsmenn umferðareftirlitsins verða áfram um sinn í Borgartúni 7. Unnið er að því að flytja rafræn gögn og tryggja aðgengi starfsmanna að þeim gögnum sem þeir þurfa að hafa aðgang að. Þeir starfsmenn Siglingastofnunar sem verða hluti nýrrar Vegagerðar verða staðsettir í Vesturvör a.m.k. fram í september. Fyrst um sinn verður hægt að ná til þeirra í síma og tölvupósti gegnum sömu símanúmer og póstföng og áður, auk þess sem þeir fá ný undir merkjum Vegagerðar. Við þessi tímamót verða töluverðar breytingar í starfsmannahaldi og nokkur fjöldi starfsmanna hættir störfum eða leitar á ný mið. Þeim er öllum þökkuð þeirra mikilsverðu störf, hvort sem er fyrir Vegagerðina eða Siglingastofnun. Sumir starfsmenn flytjast milli stofnana og aðrir ráðnir í stað þeirra sem hverfa á braut og eru þeir boðnir velkomnir til starfa á nýrri stofnun.

Í tímamótum felast ný tækifæri sem við hjá nýrri Vegagerð munum nýta til að móta nýja framsækna stofnun með áhugaverðum verkefnum og ánægðu starfsfólki, til heilla fyrir okkar samfélag. Gott og öruggt samgöngukerfi er einn af mikilvægustu innviðum samfélagsins og okkar hlutverk er að byggja það, reka og þróa.

Með sumarkveðjum

Hreinn Haraldsson

 

Skipurit Vegagerðarinnar