Fréttir

Mun meiri umferð á höfuðborgarsvæðinu í maí

umferðin hefur aukist í fjóra mánuði af fimm á þessu ári

4.6.2013

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í maí jókst um 3,5 prósent frá sama mánuði fyrir árið síðan, sé tekið mið af þremur mælisniðum Vegagerðarinnar.

Frá áramótum hefur umferðin aukist um 4 prósent en aukning hefur orðið á umferðinni alla mánuðina utan marsmánuðar. Þetta er mesta aukning í byrjun árs síðan árið 2008.

Milli mánaða:

Umferðin yfir 3 mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu jókst um 3,5% í maí, borin saman við sama mánuð árið 2012. Er þetta fjórði mánuðurinn á árinu þar sem umferð eykst á milli mánaða þ.e.a.s. umferð hefur einungis dregist saman í mars miðað við árið 2012.

Frá áramótum:

Umferð hefur nú aukist um 4% frá áramótum borin saman við sama tímabil árið 2012. Svona ,,jákvæð" staða hefur ekki verið uppi síðan árið 2008, þegar umferðin hafði aukist um 6,4% miðað við árið á undan. En árið 2008 var metár í umferðinni í áður nefndum þremur mælisniðum innan höfuðborgarinnar.

Horfur út árið:

Búist er við því að umferðin muni aukast í öllum mánuðum ársins, ef frá er talinn mars mánuður eins og áður sagði. Ef þessi spá gengur eftir gæti umferðin samanlögð umferð aukist um 3% innan marka höfuðborgarinnar, miðað við árið 2012, sem yrði þá mesta aukning milli ára sem mælst hefur síðan árið 2007, en þá mældist 8% aukning miðað við árið 2006.

Ábending:

Viðgerð stendur yfir á vegi þar sem mælisnið eitt er á Hafnarfjarðarvegi sunnan Kópavogslækjar. Í þessu sniði eru því áætlaðar tölur og ber að taka niðurstöður með fyrirvara í því ljósi.

 

Talnaefni