Fréttir
  • Verndandi vegir
  • Verndandi vegir
  • Á fundi með Vegagerðarfólki
  • Vegriðsendi
  • Verndandi vegir
  • Verndandi vegir
  • Á fundi með Vegagerðarfólki
  • Verndandi vegir
  • Verndandi vegir

Vegir sem fyrirgefa mistök

aukin hugsun um umferðaröryggi

10.4.2013

Það deyja 1,3 milljónir manna á hverju ári í umferðarslysum samkvæmt útreikningum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar og ekki hægt að líkja því við annað en faraldur, heimsfaraldur. Þetta jafngildir því að á hverjum degi hrapi 9-10 flugvélar.

 

Þetta kom fram í máli Mike Dreznes sem er varaforseti IRF, International Road Federation, en hann hélt erindi á fundi sem Félags íslenskra bifreiðaeigenda átti frumkvæði að en að honum stóðu einnig Vegagerðin,  innanríkisráðuneytið og Samtök fjármálafyrirtækja.

Umferðaröryggi er snar þáttur í starfi Vegagerðarinnar og þá er litið til vegakerfisins, umhverfis vega og vegriða sem Mike Dreznes fjallaði mikið um í erindi sínu. 

Á síðustu árum hefur umferðaröryggi sífellt orðið mikilvægari þáttur í starfsemi Vegagerðarinnar og mun öryggið halda áfram að skipta mestu máli. Það var því fengur að fá Mike Dreznes hingað til lands. Í fyrirlestri sínum, sem var mjög líflegur, fjallaði hann um herferð Sameinuðu þjóðanna um áratug aðgerða þar sem stefnan er sett á að fækka banaslysum um helming á árunum 2011-2020.

Fram kom í ávörpum Hreins Haraldssonar vegamálastjóra og Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra að hér á landi væru menn meðvitaðir um mikilvægi vega sem fyrirgefa mistök ökumanns, þ.e.a.s. þannig að komi eitthvað upp á með ökumann eða bíl, þá sé vegakerfið þannig hannað og útbúið að ekki hljótist bani af.

Hjá Vegagerðinni er unnið  markvisst að þessu samkvæmt umferðaröryggisáætlun stjórnvalda. Það er gert með því að til dæmis að bæta umhverfi vega og með uppsetningu vegriða sem vegfarendur hafa víða orðið varir við á síðustu misserum.

Líkt og Mike Dreznes kom inn á þá verður aldrei hægt að koma í veg fyrir slys, menn verða að einbeita sér að því að fækka þeim en líka og ekki síður að koma í veg fyrir banaslys og alvarleg slys þótt óhapp verði eða mistök gerð.

Þegar kemur að umferðaröryggi líta menn til þriggja þátta, ökumannsins, bílsins og vegarins. Menn verða að sætta sig við að vegfarendur muni stundum haga sér heimskulega og þeir muni gera mistök, vegakerfið þurfi að vera þannig útbúið að það fyrirgefi þessi mistök. Þess vegna er á ensku talað um „forgiving roads“ eða fyrirgefandi vegi. Einnig má nefna þá verndandi vegi sem var yfirskrift fundarins.

Dreznes fór vel yfir vegrið og búnað sem hann ítrekaði að þurfi að vera viðurkenndur og rannsakaður. Mistök hafi verið gerð í gegnum tíðina með vegriðsenda til dæmis, fyrst upp úr miðri síðastri öld með enda sem stungust gjarnan í gegnum bifreiðar við árekstur, það leystu menn með því að leiða vegriðsendann niður í jörðina, sem leiddi aftur til þess að þegar ekið var á endann tókst bíllinn á loft. Þetta sé ekki lengur gert, eða eigi ekki lengur að vera gert. Allt of mikið er um að menn noti úreltar, hættulegar aðferðir, benti hann á.

Vegfarendur á höfuðborgarsvæðinu hafa séð vegriðsenda einsog þeir eiga að vera, sérstaklega þar sem umferð er mikil og hröð. Það er að segja með eftirgefanlegum enda sem líka mætti kalla fyrirgefanlegan enda, nokkurs konar harmonikka sem gefur eftir við árekstur.

Mike Dreznes ræddi einnig við starfsmenn Vegagerðarinnar sem koma að umferðaröryggi og hönnun vega. Hann var sérstaklega ánægður með hver framarlega Ísland stendur í umferðaröryggisrýni sem er nauðsynlegur þáttur til að auka umferðaröryggi nýrra mannvirkja.  

Sjá einnig fréttir innanríkisráðuneytisins og FÍB

 

Vegriðsendi