Fréttir
  • Stuð í strætó!
  • Stuð í strætó!
  • Stuð í strætó!
  • Stuð í strætó!
  • Stuð í strætó!
  • Stuð í strætó!

Stuð í strætó. Vel heppnað málþing.

mikið að gerast varðandi almenningssamgöngur

20.3.2013

Aukning farþega í strætó hvort heldur er á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni hefur verið mikil á undanfönum misserum. Þetta er eitt af því sem kom fram á velheppnuðu málþingi "Stuð í strætó!" sem innanríkisráðneytið og Vegagerðin gengust fyrir í morgun (miðvikudag 20. mars).

Rætt var um þær breytingar sem nú eiga sér stað og þær áherslur sem lagðar eru á almenningssamgöngur í nýrri 12 ára samgönguáætlun sem Alþingi hefur samþykkt. En sérstakt átak upp á 10 milljarða króna á tíu árum er þar að finna. Markmiðið er að tvöfalda almenningssamgöngur.

Innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, opnaði málþingið og minnti á að þótt hann sjálfur væri mikill einkabílisti og hefði verið í gegnum árin þá virti hann þá mikils sem hefðu rifið sig upp úr einkabílismanum en því fylgdi nefnilega mikið frelsi að ferðast með til dæmis strætó. Síðar á málþinginu tók Guðríður Haraldsdóttir undir þetta en hún ferðast daglega með strætó á milli Akraness og Reykjavíkur og líkar ákaflega vel. Nú bíður hún bara eftir því að strætó verði ókeypis, einsog kom líka fram að strætó er á Akureyri.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, fjallaði um þær breytingar sem orðið hafa með því að sérleyfi hafa verið lögð niður og samningar gerðir við sveitarfélögin um að sinna almenningssamgöngum. En í ljós kom að "á 26 sérleiðum voru farþegar færri en þrír í hverri ferð og færri en 1 á 10 leiðum." Þannig að á þeim tímapunkti varð að ákveða þurfti hvort einfaldlega ætti að hætta styrkjum hins opinbera til almenningssamgagna, eða reyna nýjar leiðir. 

Nýju leiðirnar hafa strax skilað árangri. Fram kom hjá fulltrúum Strætó, þeim Reyni Jónassyni, framkvæmdastjóra og Einar Kristjánssyni, skipulags- og þróunarsviði, að farþegum úti á landi fjölgar hratt, áætlað var að flytja í fyrra 110 þúsund farþega en raunin varð 186 þúsund farþegar. Sama á sér stað á höfuðborgarsvæðinu þar sem farþegum hefur fjölgað úr um 8 milljónum í 10,7 milljónir.

Á Akureyri er sömu sögu að segja. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri, upplýsti að farþegar á Akureyri hefðu verið um 150 þúsund árið 2006 þegar gjald var tekið í strætó, en þeim hefði fjölgað í 330 þúsund þegar ókeypis varð í strætó og hefðu verið komnir í 460 þúsund árið 2011.

Á Austurlandi eru menn líkt og annars staðar úti á landi að samþætta þjónustuna. Fram kom hjá Ásu Kristínu Sigurjónsdóttur, verkefnisstjóra, að fjögur kerfið hefðu verið sameinuð, þ.e.a.s. sérleyfið gamla, skólaaksturinn, íþróttaaksturinn og starfsmannaakstur Alcoa með góðum árangri. Það vanti þó viljann hjá fólki sem þurfi að fá að sjá ávinninginn, sjálf taki hún rútuna frá Reyðarfirði á Egilsstaði daglega og það sé einfaldlega "fáránlega þægilegt", hún hafi fengið tíma fyrir sig og þurfi ekki að sinna akstri við mismunandi erfiðar aðstæður heldur geti gert allskonar annað í staðinn.

Þorsteinn R. Hermannsson samgönguverkfræðingur hjá Mannviti fjallaði um samgöngusamninga sem eru í auknum mæli að ryðja sér til rúms. Hjá Mannviti hafi þeim sem mæta í vinnuna á einkabíl fækkað úr 71 prósenti í 61 prósent og það muni miklu. Skiptir sköpum fyrir fyrirtæki sem þyrfti kannski að öðrum kosti að íhuga að reisa bílastæðahús eða -kjallara sem kostaði gríaðrlega fjármuni. Ekkert nema jákvætt væri hægt að fá út úr samgöngusamningum.

Kristín Soffía Jónsdóttir frá umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur varpaði upp þeirri spurningu hvernig borg við vildum búa í. Bílum hefði fjölgað gífurlega í Borginni fyrir hrun en hrunið og hærra bensínverð gæfi borgarbúum annað tækifæri til þess að fjölga öðrum samgöngumátum en einkabílnum. "Það verður að þrengja að einkabílnum," sagði hún og sagðist vera stolt af því. Hún taldi einnig einkennilega hörð viðbrögð hafa orðið við því að borgin hafi lokað Laugaveginu, eða 700 metra kafla hans, í einungis tvo mánuði á ári, það væri ekki einsog verið væri að takmarka nema smá brotabrot af öllu gatnakerfinu, þó annað hefði mátt skilja af umræðunni.

Málþinginu lauk svo með uppistandi Ara Eldjárns sem sagðist fá margar góðar hugmyndir í strætó -- þar ferðaðist nefnilega svo marg sérstakt fólk -- en hann hefði eftir tíu ár í einkabíl tekið upp á því að ferðast aftur með strætó. Það væri svo skemmtilegt, sagði hann, að helst vildi hann fara aukhring því 5 mínútna ferð væri eiginlega alltof stutt.

Það er því að minnsta kosti stuð í strætó hjá Ara.