Fréttir
  • Brúin yfir Mjóafjörð
  • Viðurkenningar veittar í Reykjavík 17. janúar
  • Viðurkenningar veittar á Ísafirði 11. desember

Vegagerð á Djúpvegi verðlaunuð

kaflinn Djúpvegur, Reykjanes - Hörtná fyrir hönnun og frágang

17.1.2013

Vegagerð á kaflanum Reykjanes - Hörtná á Djúpvegi sem liggur meðal annars yfir Mjóafjörð fékk Vörðuna viðurkenningu Vegagerðarinnar vegna hönnunar og frágangs vegamannvirkja á árunum 2008-2010. Hluti þeirra sem að verkinu stóðu tók við viðurkenningum á Ísafirði í desember en seinni hlutinni í Reykjavík í dag 17. janúar. 

Veghönnunardeild Vegagerðarinnar hannaði veginn, brúadeild Vegagerðarinnar og Efla verkfræðistofa hönnuðu brýr. Eftirlit og umsjón framkvæmdar var í höndum nýframkvæmdadeildar Norðvestursvæðis Vegagerðarinnar. Verktaki var í sameiningu tvö vestfirsk fyrirtæki, KNH ehf. og Vestfirskir verktakar. Og hlutu þeir viðurkenningu.

Frekari umfjöllun um mannvirkið og þau önnur 15 verkefni frá þessum árum sem hlutu tilnefningu er að finna í Framkvæmdafréttum (hér á vefnum).

Varðan

Vegagerðin veitir viðurkenningu vegna hönnunar og frágangs vegamannvirkja á þriggja ára fresti. Tilgangurinn með viðurkenningunum er að efla vitund um útlit og frágang mannvirkja meðal starfsmanna og verktaka Vegagerðarinnar, stuðla að umræðu þar um og að vitna um ákveðinn vilja yfirstjórnarinnar á þessu sviði. Umhverfis- og öryggisnefndir Vegagerðarinnar tilnefna þau mannvirki, sem þær telja skara framúr hverju sinni. Dómnefnd fer og skoðar allar tilnefningar og metur þær.

Umsögn dómnefndar um verðlaunakaflann
Vegurinn liggur um fjölbreytt og fallegt landslag, um nes, firði, eyju og hálsa. Á honum eru nokkrar brýr, þar af ein yfir Reykjafjörð, önnur yfir Vatnsfjarðarós og þriðja yfir Mjóafjörð. Vegurinn er vel lagður og gjörbreytir samgöngum um Ísafjarðardjúp til hins betra. Landslagið meðfram veginum er vel lagað að óhreyfðu landi og uppgræðsla hefur tekist vel. Útsýnið af veginum er mjög fallegt og brúin yfir Mjóafjörð
er glæsilegt og minnisstætt kennileiti í landslaginu. Aðrar brýr eru vel útfærðar. Áningarstaðir við brúna í Mjóafirði eru vel staðsettir til útivistar. Frágangur er á heildina litið góður, ekki allur fullkominn en heildaryfirbragð framkvæmdarinnar er mjög gott. Straumur í brúaropi í Reykjafirði er of mikill. Á áningarstað Reykjanesmegin í Mjóafirði eru nestisborð á góðum stöðum, en útbúa þarf gönguleið að þeim vegna krafna um aðgengi fyrir alla.


Hönnun, umsjón og framkvæmd
Veghönnunardeild Vegagerðarinnar hannaði veginn, brúadeild Vegagerðarinnar og Efla verkfræðistofa hönnuðu brýr. Eftirlit og umsjón framkvæmdar var í höndum nýframkvæmdadeildar Norðvestursvæðis Vegagerðarinnar. Verktaki var í sameiningu tvö vestfirsk fyrirtæki, KNH ehf. og Vestfirskir verktakar.

 

Á myndunum

Í Reykjavík, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Kristján Kristjánsson og Halldór Sveinn Hauksson veghönnunardeild, Guðmundur Valur Guðmundsson, Baldvin Einarsson og Magnús Arason Eflu, Einar Hafliðason brúardeild, Eiríkur Bjarnason, Matthildur Bára Stefánsdóttir og Ásrún Rúdolfsdóttir dómnefndinni, Guðrún Þóra Garðarsdóttir brúadeild og Helgi Jóhannesson fyrrverandi starfsmaður brúadeildar. Á myndina vantar Baldur Þór Þorvaldsson brúadeild. 

Á Ísafirði, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Hermann Þorsteinsson
og Sveinn Ingi Guðbjörnsson, Vestfirskum verktökum, Magnús Valur Jóhannsson og Gunnar Sigurgeirsson norðvestursvæði Vegagerðarinnar.
Ljósmynd á Ísafirði: Halldór Sveinbjörnsson, Bæjarins besta.