Fréttir

Mikið að gera í snjómokstri

stefnt að því að opna veginn um Klettsháls um miðjan dag

3.1.2013

Stefnt er að því að opna Vestfjarðaveg um sunnanverða Vestfirði um miðjan dag í dag. Ófært hefur verið frá Brjánslæk yfir Klettsháls. Unnið er með tveimur snjóblásurum og einnig hefur jarðýta komið að snjóruðningnum. En mikill snjór er á öllum Vestfjörðum. 

Unnið er að útmokstri í Ísafjarðardjúpi, þar er gríðarlega mikill snjór t.d. í Skötufirði og þar eru þrjú tæki að sinna útmokstrinum, þ.e.a.s. að breikka akbrautina og taka út snjóflóð sem fallið hafa. Einnig er unnið að því sama víðar í kringum Ísafjörð.

Þá er víða unnið að skröpun og öðrum hálkuvörnum enda víða flughált.

Á sunnanverðum Vestfjörðum brotnaði drifskaft í öðrum snjóblásaranum á nýársdag sem hefur tafið snjómokstur, en báðir eru nú á fullu. Mikil hálka er einnig á vegum og unnið er að því að skrapa, sanda og salta, því í hlýindunum sem spáð er má búast við áframhaldandi flughálku. Mikill klaki er víða og því mikið verk að skrapa hann niður.

Sömu sögu er að segja af vegum á norðanverðum Vestfjörðum, þar er unnið að skröpun og hálkuvörnum öðrum, víðast er flughált og verður eitthvað áfram.

Austan Steingrímsfjarðarheiðar er sömu sögu að segja, þar er flughált. Ekki hefur sést jafnmikill snjór á láglendi á því svæði síðan árið 1995. Unnið er að hálkuvörnum, sandað og skrapað, en reikna má með því að flughált verði eitthvað áfram. Ekki er grundvöllur til þess að hefja mokstur í Árneshrepp og hann ekki ráðgerður eins og er. Fært er á milli Norðurfjarðar og flugvallarins í Gjögri.