Fréttir
  • Umferð

Nánast engin fylgni bensínverðs og aksturs til langs tíma litið

til skamms tíma og meðan kaupmáttur eykst ekki er fylgni

10.12.2012

Þegar litið er allt aftur til ársins 1975 er sterk fylgni milli aksturs á þjóðvegakerfinu og mannfjölda, bílaeignar, landsframleiðslu og kaupmátts launa. Nokkur fylgni er við akstur á hvert ökutæki en nánast enginn fylgni við bensínverð. Þannig að á þessu tímabili eykst akstur við fjölgun fólks og bíla, eykst við aukna landsframleiðslu og eykst við aukinn kaupmátt. En hinsvegar minnkar aksturinn ekki þótt verð á bensíni hækki. Til langs tíma litið hefur verðið ekki áhrif á aksturinn.

Hinsvegar má leiða að því líkum að þegar kaupmáttur fylgir ekki hækkun bensínverðs og aðrir þættir koma sömuleiðis neikvæðir þá leiði hærra bensínverð til minni aksturs eins og raunin hefur orðið eftir hrunið 2008

 

 

Talsvert hefur verið rætt um, hvaða þjóðhagslegu stærðir það eru sem áhrif hafa á akstur á þjóðvegakerfinu, sérstaklega þegar til lengri tíma er litið. Fyrirfram má ætla að eftirtaldar stærðir séu ráðandi áhrifavaldar og vægi þeirra sé e.t.v. svipað:

· Mannfjöldi

· Bílaeign

· Akstur á hvert ökutæki

· Verg landsframleiðsla (mælieining hagvaxtar)

· Bensínverð

· Kaupmáttur launa

 

Þegar ofangreindum stærðum er breytt í vísitölur, til myndrænnar framsetningar, virðast einkum tvær stærðir skera sig úr sem áhrifavaldar eða bílaeign og verg landsframleiðsla. Áður hefur verið birt frétt, á vef Vegagerðarinnar, af fylgni milli heildaraksturs og vergrar landsframleiðslu, þannig það kom ekki á óvart að sjá mikla fylgni þar á milli. Það ætti heldur ekki að vera nein tíðindi að bílaeign skuli vera stór áhrifavaldur eins og sjá má.

 

Myndræn framsetning á visitöluformi virðist sýna að akstur á hvert ökutæki, mannfjöldi og bensínverð hafi hvað síst áhrif á akstur.

 

 

 

Fylgni aksturs og ýmissa hagstærða 

 

Þessi myndræna framsetning segir þó ekki allt, því ef tíminn (árin) er tekinn út úr myndinni og fylgnin reiknuð samkvæmt Pearsons-stuðlinum, kemur nokkuð athyglisverð niðurstaða í ljós:

1. Mannfjöldi 98% fylgni

2. Bílaeign 96% fylgni

3. Verg landsframleiðsla 96% fylgni

4. Kaupmáttur launa 90% fylgni

5. Akstur á hvert ökutæki 53% fylgni

6. Bensínverð 2% fylgni

Afgerandi mesta fylgnin mælist við mannfjölda, bílaeign og verga landsframleiðslu en kaupmátturinn fylgir þar fast á eftir með 90% fylgni.

Við fyrstu sýn virðist það svolítið undarlegt að akstur á hvert ökutæki sýni litla fylgni við heildarakstur á þjóðvegakerfinu og að bensínverð sé lítill sem enginn áhrifavaldur, yfir höfuð amk til lengri tíma.

Ef horft er til bensínverðs: Þá gefur meðfylgjandi mynd til kynna að ástæða þess að bensínverð mælist ekki meiri áhrifavaldur á heildaraksturinn, þegar til lengri tíma er litið, er e.t.v. sú að kaupmáttur launa hefur ávallt haldið í við bensínverðið og gott betur, ef frá eru talin árin frá bankahruni.

En skammtímaáhrif, nú um stundir þegar allt hefur lagst á eitt þ.e.a.s. minni hagvöxtur, kaupmáttur, bílaeign og mannfjöldi svo til staðið í stað, í kjölfar bankahrunsins, að heildaraksturinn dregst saman einnig samhliða hækkandi bensínverði. Verð á bensíni hefur aldrei verið hærra, í sögulegu samhengi og sem hlutfall af kaupmætti, frá því að mælingar á honum hófust árið 1989. Þá virðist heildarakstur og hærra bensínverð haldast í hendur, því eru skammtímaáhrif þessa ljós. Til lengri tíma litið verður þó að gera ráð fyrir að lykiláhrifavaldar í heildarakstri munu vaxa á ný og því muni aksturinn gera það einnig.

En til skemmri tíma verður fróðlegt að sjá hvort hér verði minna ekið á hvert ökutæki ef kaupmáttur heldur ekki í við bensínhækkanir.

Varðandi akstur á hvern bíl: Er ein tilgátan sú að hækkandi bensínverð hafi svo sannarlega áhrif á hvern einstaka bíleiganda, a.m.k. til skemmri tíma, þótt bensínverð sé ekki afgerandi áhrifavaldur á heildaraksturinn. Í þessu sambandi má benda á að þegar bensínverð var hvað hæst á árunum 1978 - 1985, dró klárlega úr akstri á hvern bíl en, öfugt á við það ástand sem nú hefur ríkt, þá á sama tíma jókst verg landsframleiðsla sem leiða má líkur að því að þar með hafi kaupmáttur vaxið einnig (ekki reiknaður út á þessum tíma) og landsmönnum fjölgaði, sem síðar leiddi til þess að meira fjölgaði í bílaflota landsmanna en sem nam samdrætti í akstri á hvern bíl, sem þá að lokum skilaði sér í heildarakstursaukningu á vegakerfinu.

Til frekari fróðleiks má benda á að bílafloti landsmanna hefur vaxið um heil 235% frá árinu 1975 og mannfjöldinn um 46% meðan akstur á hvern bíl hefur aðeins aukist um 8%. Aukinn bílafloti í hlutfalli við mannfjölda hefur því ekki leitt til minni aksturs á hvern bíl heldur þvert á móti, þó blikur kunni að vera á lofti nú samanber þróun kaupmáttar og bensínverðs.

Hér hafa einnig verið færð rök fyrir því að aksturstölur megi nota sem rauntímamælikvarða og til að spá fyrir um vöxt annara hagstærða, svo sem vergrar landsframleiðslu, sem ekki hefur verið endanlega reiknuð út, af Seðlabanka Íslands og deilur standa um nú um stundir hver hún verði að lokum.

Þetta og meira til í væntanlegri langtímaumferðarspá Vegagerðarinnar 2010 - 2060.