Fréttir
  • Umferðin í nóvember með spá
  • Höfuðborgarsvæðið samanlagt

Aukin umferð í ár á höfuðborgarsvæðinu

meiri umferð í nóvember og útlit fyrir nokkra aukningu í ár

4.12.2012

Umferðin, mæld í þremur mælisniðum Vegagerðarinnar, á höfuðborgarsvæðinu reyndist 1,6 prósenti meiri í nóvember í ár en í nóvember í fyrra. Umferðin á svæðinu í ár hefur aukist um 1,4 prósent og samkvæmt spá Vegagerðarinnar eykst umferðin í ár líklega um 1,5 prósent.

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu er því nokkuð ólík umferðinni á Hringveginum en þar er reiknað með lítilsháttar samdrætti umferðar í ár, eða svipaðri umferð og á síðasta ári. Þetta er mikill umsnúningur í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu því í fyrra dróst hún saman um 2,5 prósent frá fyrra ári.

Milli mánaða 2011 og 2012
Niðurstaða umferðamælinga á höfuðborgarsvæðinu í nóvember, í þremur mælisniðum Vegagerðarinnar, varð nokkuð í samræmið við það sem gert hafði verið ráð fyrir en aukningin mældist 1,6% en gert hafði verið ráð fyrir 1,4% aukningu.

Það sem af er ári 2011 og 2012
Það sem af er ári hefur umferð á höfuðborgarsvæðinu aukist um 1,4% miðað við sama tímabil árið 2011. Á sama tíma á síðasta ári hafði umferð dregist saman um 2,4% í þessum mælisniðum, sem að lokum endaði í 2,5% samdrætti eftir að árið var gert upp. Þetta er því talsverður viðsnúningur í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu miðað við árið 2011, þótt hún sé enn um 5% undir metárinu 2008 í magni, sjá meðfylgjandi talnaefni.

Horfur út árið 2012
Gangi umferðarspá, byggð á þróun síðustu ára fyrir desember, eftir má reikna með 1,5% - 2,5% (fer eftir því hvaða vægi met árið 2008 fær í útreikningum) aukningu milli desembermánaða 2011 og 2012 og um 1,5% aukning verði þá heildar niðurstaðan milli ára. 

Það eru því allt aðrar horfur á höfuðborgarsvæðinu en á Hringveginum þar sem gert er ráð fyrir 0,5% samdrætti nú í ár, sjá eldri frétt um umferð yfir 16 lykilteljara á Hringvegi.