Fréttir
  • Mælingar
  • Múlagöng
  • Múlagöng

Reynir á Múlagöng

á Fiskideginum mikla og um verlsunarmannahelgi

17.8.2012

Á tíu daga tímabili um verslunarmannahelgi og á Fiskideginum mikla gerðist það 49 sinnum að meira en 100 bílar fóru um Múlagöng á einni klukkustund. Oftast gerðist þetta á Fiskidagshelginni eða 27 sinnum. Stærsta klukkustundin var þann laugardag milli fjögur og fimm þegar 234 bílar fóru um göngin.

Sé tekið mið af norskum stöðlum um einbreið göng anna þau allt að 1000 bílum á sólarhring sem merkir að stærsta klukkustundin gæti verið um 100 bílar. Með stýringu, handstýringu einsog var á Fiskideginum mikla anna göngin fleiri bílum.

Múlagöng

Samkvæmt norskum stöðlum þá eiga einbreið göng, með útskotum, að geta annað allt að 1000 bílum á sólarhring en það merkir að stærsta klst. sé u.þ.b. 100 bílar á klst.

Sé þetta viðmið notað sést að umferðin fór samtals 49 sinnum upp fyrir 100 bíla á klst. á tíu daga tímabili í Múlanum norðan Dalvíkur í kringum verslunarmannahelgi og Fiskidaginn mikla. Oftast fór umferðin yfir 100 bíla um Fiskidagshelgina sjálfa eða 27 sinnum en 16 sinnum um verslunarmannahelgina, síðan einstaka sinnum þar á milli.

Stærsta klukkustundin var 234 bílar, laugardaginn 11. ágúst á bilinu 16:00 - 17:00. Ekki er hægt að vita með vissu hvort þetta sé stærsta klst. sem orðið hefur í Múlanum vegna þess að veðurstöðin, þar sem mælingin fer fram, var sett niður um miðjan ágúst 2011 þegar Fiskidagshelginni var lokið það árið. En ef notast er við einfalda þumalputtareglu sem segir að stærsta klst. sé u.þ.b. 10% af sólarhringsumferðinni þá höfum við sólarhringstalningu til að ganga út frá og þá gæti þetta vel verið með stærstu einstöku klst. sem orðið hafa um Múlann.

Stærstu dagar um Múlann hafa ávallt verið á laugardeginum um Fiskidagshelgina. Í fyrra var stærsti dagur, sem mælst hefur eða 2386 bílar sem gefur þá svipaða klst. umferð og varð nú í ár. Þannig eru álagstopparnir að verða stærri ár frá ári um Múlagöng. 230 - 250 bílar á klst. þýða um 4 bílar á mínútu eða 1 bíll á 15 sek fresti. Það má því lítið út af bregða svo göngin stíflist ekki t.d. ef langir bílar eru á ferð um miðjan daginn á þessu tímabili.

 

 Mælingar

 

Eins og áður sagði var hægt að koma, með venjulegri handstýringu, um 230 bílum á klst. í gegnum göngin. Velta má fyrir sér hvort góð ljósastýring gæti stóraukið umferðarrýmd ganganna, lengt líftíma þeirra og þá sparað mikið fé og gert ökumenn sáttari.

Línuritið í pdf - hægt að stækka