Fréttir
  • Umferðin í höfuðborginni með spá út árið
  • Umferðin í höfuðborginn eftir mánuðum

Umferð eykst mikið í höfuðborginni í júlí

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst um tæp 7 prósent

2.8.2012

 

Mikil aukning varð á umferð innan höfuðborgarinnar í júlí mánuði. Hafa ber í huga að umferðin á höfuðborgarsvæðinu í júlí er alla jafna með minnsta móti, öfugt á við það sem gerist á Hringveginum. Umferðin jókst um tæp sjö prósent frá því sem hún var í júlí í fyrra.  

Í ár hefur umferðin í þremur mælipunktum Vegagerðarinnar aukist um 1,6 prósent og Vegagerðin spáir því að umferðin muni í ár aukast um 1-2 prósent. En það yrði þá í fyrsta sinn sem umferðin eykst á heilu ári síðan árið 2008.

 

Milli mánaða 2011 og 2012:

6,7% aukning varð á akstri innan borgarmarka milli júlí mánaða 2011 og 2012. Þetta er talsvert meiri aukning en gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum Vegagerðarinnar, en hún hafði gert ráð fyrir um 4,5% akstursaukningu. Þetta er mesta aukning milli einstakra mánaða síðan 12,6% aukning varð á milli apríl mánaða 2007 og 2008. Mestu munar nú um tæplega 12% aukningu sem varð í teljarasniði á Hafnarfjarðarvegi.

Þessi mikla aukning innan borgarmarka virðist þó ekki vera að skila sér út á Hringveginn, samanber umferðarfréttir af 16 lykilteljurum á Hringvegi, nema vera skildi á Suðurlandi.

 

Það sem af er ári:

Nú hefur akstur á höfuðborgarsvæðinu aukist, það sem af er ári, um 1,6% og hefur slík akstursaukning ekki sést síðan í október 2008. En árið 2008 var met ár í akstri innan höfuðborgarsvæðisins.

 

Horfur út árið

Haldi umferðin, hér eftir, að haga sér með svipuðum hætti og undanfarin ár, má búast við 1-2% aukningu á akstri innan höfuðborgarsvæðisins, borið saman við árið 2011. Þrátt fyrir þessa aukningu er enn langt í land að umferðin verði sú sama og árið 2008 en heildarakstur stefnir í að vera rétt undir því sem hann var árið 2010 innan höfuðborgarsvæðisins, samanber meðfylgjandi talnaefni.