Fréttir
  • Skrifað undir samkomulagið
  • Vegamálastjóri og formaður borgarráðs koma hjólandi til undirskriftar

Skrifað undir á hjólunum

Vegamálastjóri og formaður borgarráðs undirrituðu á Geirsnefi

31.7.2012

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs undirrituðu í dag samkomulag sem leggur grunninn að áframhaldandi uppbyggingu hjólreiða- og göngustíga í Reykjavík. Kostnaður við framkvæmdir sem tengjast samningnum er áætlaður um 2 milljarðar króna.

Samkomulagið felur í sér að Vegagerðin greiði helming kostnaðar við ákveðna hjólreiða- og göngustíga og byggir það á vegalögum og nýsamþykktum samgönguáætlunum. Gengið var frá samkomulagi um verkefni ársins 2012 sem eru Suðurlandsbraut (Hlemmur - Elliðaárósar) og á Vesturlandsvegi.

Samkomulag er um að fyrir 15. september verði ákveðið hvað mikið verður lagt í þessar framkvæmdir á árinu 2013 og lögð drög af verkefnum þess árs.

Vegagerðin og Reykjavíkurborg eru sammála um að stefnt skuli að því að aðskilja hjólreiðar og bílaumferð á umferðarmiklum vegum þar sem umferðarhraði er að jafnaði mikill, þegar greið og örugg leið fyrir hjólaumferð hefur verið frágengin.

Skrifað var undir samkomulagið yst á Geirsnefi í Reykjavík þar sem settur verður upp áningarstaður í tengslum við hjóla- og göngustíg yfir Elliðaárósa. Vegamálastjóri og formaður borgarráðs komu af þessu tilefni hjólandi báðir tveir til undirritunarinnar. 

Stígar sem Vegagerðin kemur að

Fréttatilkynning