Fréttir
  • Teikning af þéttbýlishliði við Þingvöll, eyjan verður tekin burt og merkta svæðið verður fræst
  • Þéttbýlishliðið við Miðfell
  • Við Þingvelli 24. júlí vestan þjónustumiðstöðvar

Umferðareyjarnar verða teknar niður

Eyjarnar eru hluti af þéttbýlishliðum inn í þjóðgarðinn á Þingvöllum

25.7.2012

Vegagerðin hefur ákveðið að umferðareyjar í tveimur þéttbýlishliðum inn í þjóðgarðinn á Þingvöllum verði teknar niður. Yfirborðsmerkingar munu halda sér en þær verða bættar. Til frekara öryggis og til að freista þess að ná því markmiði að hægja á umferðinni verða fræstar vegrifflur í merkta svæðið.

 

Þéttbýlishlið eru samkvæmt orðanna hljóðan sett upp á þjóðvegum sem liggja í gegnum þéttbýli og hefur það tekist mjög vel víða um land. Ljóst er nú að sama útfærsla á leið inn í þjóðgarðinn, þar sem ekki er þéttbýli, er óheppileg og voru mistök að sjá það ekki fyrir. Auk þess krefst slíkt veglýsingar sem ekki er fyrir hendi.  

Eyjarnar verða teknar niður svo fljótt sem verða má. Rétt er eigi að síður að minna á að áður en að þéttbýlishliðinu er komið er búið að lækka hámarkshraðann með skiltum, fyrst í 70 km/klst. og síðan í 50 km/klst. Þéttbýlishliðin eru þar að auki nokkuð stór og áberandi. Því er enn á ný brýnt fyrir vegfarendum að fylgjast vel með umferðarmerkingum og fylgja þeim hraðafyrirmælum sem gilda hverju sinni.

Þéttbýlishliðin eru sett upp til að auka umferðaröryggi og það er ljóst að á þjóðvegum sem liggja um þéttbýli skipta þau sköpum í því að ná athygli ökumanna og ná niður ökuhraðanum. Það leiðir til fækkunar slysa og er til mikils unnið ef hægt er að fækka alvarlegum slysum að ekki sé talað um banaslysum.

Aðstæður við Þingvelli eru öðruvísi þar sem ekki er verið að aka inn í þéttbýli. Ökumenn eiga því ef til vill erfiðara með að átta sig á því til hvers hliðin eru upp sett við Þingvelli. Ástæðan er sú að hámarkshraðinn í þjóðgarðinum er 50 km/klst. og vegurinn með takmarkaðri vegsýn er ekki hugsaður fyrir meiri hraða. Það er umferðaröryggisatriði að ekki sé ekið hraðar og Vegagerðin mun áfram vinna að því markmiði að umferðarhraði í þjóðgarðinum verði 50 km/klst.

Einnig er ljóst að mistök voru gerð við framkvæmdina þar sem eyjarnar voru settar upp áður en yfirborðsmerkingar voru málaðar en það hefði þurft að gerast áður eða samtímis. Vegagerðin biðst afsökunar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið.