Fréttir
  • Höfuðborgarsvæðið, samanlagt í júní 2012 með spá
  • Umferðin á höfuðborgarsvæðinu, spá fyrir árið 2012

Meiri umferð á höfuðborgarsvæðinu í júní

gæti bent til fleiri styttri ferða á kostnað þeirra lengri

5.7.2012

Umferðin um þrjú mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu jókst um 4,3 pósent í júní sem er langamesta aukningin sem sést hefur í einum mánuði á þessu ári. Frá áramótum hefur aksturinn á höfuðborgarsvæðinu aukist um tæpt prósent.

Vegagerðin reiknar nú með að umferðin á svæðinu aukist um ríflega eitt prósent árið 2012, samkvæmt spálíkani. Aukin umferð í júní bendir til þess að fjölgun hafi orðið á styttri ferðum höfuðborgabúa út á land, dagsferða eða tveggja daga ferða á kostnaði lengri ferða.

 

Milli mánaða 2011 og 2012

Þrjú mælisnið innan höfuðborgarsvæðis gefa vísbendingar um að mun meiri umferð hafi verið á höfuðborgarsvæðinu í júní í ár miðað við síðasta ár, en akstur jókst um 4,3% á milli júní mánaða sem er langmesta aukning milli einstakra mánaða það sem af er þessu ári.

Umferðin jókst mest um Vesturlandsvegi eða 6,5% en minnst á Hafnarfjarðarvegi eða 3,3%.

Þetta kann að vera enn ein vísbending þess að skreppitúrum fjölgi út frá höfuðborgarsvæðinu.

Tilgátan um aukna skreppitúra gengur m.a. út á það að íbúar höfuðborgarsvæðis séu í minna mæli í lengri fríum út á landi en áður og þess í stað farnir að skreppa í styttri dagstúra út úr borginni í meiri mæli en áður, eins og vísbendingar frá teljurum út á landi benda til. Sé það rétt þá koma höfuðborgarbúar heim sama dag eða degi seinna e.t.v. og mælast þá í umferðartalningum innan og rétt utan svæðisins. Það kann að skýra að hluta til aukna umferð yfir sumarmánuði innan höfuðborgarsvæðis og aukna umferð á föstudögum og laugardögum um Hvalfjörð og Hellisheiði t.d. En þetta skýrist betur að loknu þessu sumri.

Þessu til viðbótar má benda á að umferðin í júlí er mjög lítil á höfuðborgarsvæðinu, þegar búast má við að höfuðborgarbúar flykkist út á land í lengri ferðir, sjá meðfylgjandi línurit, en þá er umferðin lang mest í sama mánuði úti á landi.

 

Frá áramótum milli ára 2011 og 2012

Frá áramótum hefur akstur í þremur mælisniðum innan höfuðborgarsvæðisins aukist um 0,9%.

 

Horfur út árið 2012

Áfram er búist við mikilli aukningu á akstri í næsta mánuði eða júlí en samdrætti í ágúst og september samanber meðfylgjandi mynd. Nú stefnir í að rúmlega 1% aukning verði á akstri innan höfuðborgarsvæðisins, gangi spár eftir.

 

Talnaefni.