Fréttir
  • Hlutfallsleg dreifing umferðar eftir mánuðum
  • Umferðin í júní 2012 með spá út árið
  • Umferðin í júní 2012
  • Umferðin í júní - uppsafnað

Umferðin að aukast í ár

áfram spáið Vegagerðin þó um eins prósents samdrætti í árslok

4.7.2012

Umferðin á Hringveginum, á 16 lykilteljurum, jókst um 0,7 prósent í júni síðastliðnum miðað við júní mánuð í fyrra. Þetta var svipað magn umferðar og árin 2006, 2010 og 2011. Frá áramótum hefur umferðin aukist lítillega eða um 0,2 prósent. Aukning er í öllum mánuðum nema janúar.

Aukningin er fyrst og fremst í nágrenni höfuðborgarinnar og bendir til fjölgunar styttri ferða landans eða höfuðborgarbúa. Vegagerðin spáir eigi að síður að í heild gæti umferðin dregist lítillega saman í ár. En hugsanlegt er að umferðarmynstrið sé að breytast þannig að umferðin gæti minnkað eða aukist í ár um eitt prósent.

 

 

Milli mánaða:

Á Hringveginum varð 0,7% meiri umferð í nýliðnum júnímánuði miðað við sama mánuð árið 2011. Umferðarmagnið sjálft í júní var svipað og í júní 2006, 2010 og 2011 en engu að síður þá stefnir í óvenju hátt hlutfall júníumferðar nú í ár af heildarumferð ársins, sé tekið mið af árunum 2005 - 2011, samanber meðfylgjandi stöplarit um dreifingu umferðar eftir mánuðum. Þetta kann að merkja það að von sé á óvenju háu hlutfalli sumarumferðar nú í ár miðað við venjulegt ár, líkt og gerðist á síðasta ári en það ár er með hæst hlutfall sumarumferðar frá árinu 2005 þrátt fyrir mikinn almennan samdrátt í umferð það ár. Nú kunna menn að spyrja sig að því hvað þetta þýði. Almennt má segja að þetta geti gefið vísbendingu um að svo kallað ÁDU/SDU hlutfall fari minkandi (Meðalumferðin á dag allt árið/meðalumferðin á dag um sumar). Nú þarf það alls ekki að vera svo en sé það að gerast má segja að Hringvegurinn sé, þessa stundina, að líkjast meira en verið hefur ferðamannavegi/sumarvegi í stað þess að þróast í átt að stöðugri umferðþunga á milli árstíða.

Úr töflunni hér fyrir neðan má lesa að áðurnefnd aukning á milli júní mánaða er drifin áfram af 3,6% aukningu í kringum höfuðborgarsvæðið. Þetta rennir enn frekar stoðum undir þá tilgátu að styttri skreppitúrum geti verið að fjölga út frá höfuðborgarsvæðinu á kostnað lengri ferða og almennrar umferðar.

Mestur samdráttur mælist aftur á móti á Norðurlandi eða 4,6%, sjá í töflunni.

 

 

SamanbJuni2012 

 

Frá áramótum:

Það sem af er ári hefur umferð nú aukist um 0,2%, en hafði að loknum maí staðið í stað milli ára. Umferðin hefur nú verið meiri í öllum mánuðum það sem af er ári miðað við síðasta ár ef frá er talinn janúar. Þegar talnaefnið er skoðað þá má, af stórum hluta, rekja þessa aukningu til talningastaða í kringum höfuðborgarsvæðið.

Þrátt fyrir aukningu í kringum höfuðborgarsvæðið þá hefur umferð aukist mest á Hringvegi um Austurland eða 5,7% en um Norðurland hefur umferð dregist mest saman eða um 2%.

 

Horfur út árið:

Sé umferðarmynstur á Hringveginum að breytast er enn erfiðara að segja til um þróunina út árið. Spálíkan Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir venjubundnu meðalári og því spáir það minni umferð í júlí á þessu ári miðað við síðasta ár, samanber meðfylgjandi línurit um samalagða meðalumferð á dag. Ef rýnt er í tölur, línu- og stöplarit þá eru líkur til þess að sumarumferð sé að aukast (t.d. vegna aukinna skreppitúra út frá höfuðborgarsvæðinu) þá kann það að vera allt eins líklegt að svipuð umferð eða meiri verði júlí í ár miðað við árið 2011. Verði sú raunin má búast við að umferðarmagnið í ár verði mjög svipað og á síðasta ári. Umferð gæti aukist eða dregist saman um ca. 1%.

Afar fróðlegt verður því að fylgjast með þróun umferðar næstu mánuði og sérstaklega hvaða tölur koma út úr júlí og ágúst.