Fréttir
  • Umferðin um Hvalfjörð 1. júni - 30. júni
  • Umferðin um Hellisheiði 1. júni - 30. júni

Aukin umferð á föstu- og laugardögum út frá Reykjavík

Bendir til fleiri en styttri ferða

3.7.2012

Vegagerðin áætlar að umferðin í júní mánuði um Hellisheiði og um Hvalfjörð hafi verið sú sama og í fyrra en hinsvegar er aukning á umferðinni á föstudögum og laugardögum. Umferðin tók mikinn kipp um þar síðustu helgi en færri bílar fóru um þessa tvo teljara um síðustu helgi.

Aukningin á föstudögum og laugardögum og samsvarandi samdráttur virku dagana gæti bent til þess að vegfarendur fari í fleiri styttri ferðir út frá höfuðborginni en í fyrra á kostnað lengri ferða og almennrar umferðar.

 

Hellisheiði:

Áætlað er að heildarumferð um Hellisheiði hafi svo til staðið í stað í júní miðað við sama mánuð í fyrra. Umferðin tók verulegan kipp um þar síðustu helgi en þá fóru rúmlega 34 þús. bílar um heiðina frá föstudegi til sunnudags en heldur færri fóru um heiðina núna um þessa helgi, eða rúmlega 30 þús bílar.

Fyrir júní mánuð er áætlað að meðalumferð, eftir vikudögum hafi hegðað sér líkt og meðfylgjandi stöplarit sýnir borið saman við síðast ár. Samkvæmt þeirri áætlun er samdráttur í umferð á öllum vikudögum nema föstudögum og laugardögum. Áætlað er að hlutfallslega hafi umferð aukist mest á laugardögum eða um 13% en dregist mest saman á fimmtudögum um 9%.

 

Hvalfjörður:

Sama er uppi á teningum um Hvalfjarðargöng en svipuð umferð er um þau í júní miðað við sama mánuð árið á undan. Rúmlega 25 þús. bílar fóru um Hvalfjarðargöng um ný liðna helgi. En stærsta helgin í júní var helgin 15. - 17. júní með tæpa 26 þús. bíla.

Fyrir júní mánuð hefur meðalumferð, eftir vikudögum, einnig dregist saman flesta daga nema föstu-, og laugardaga. Umferðin eykst hlutfallslega mest á laugardögum eða um 3% en dregst mest saman á mánudögum um 8%.

 

Almennt:

Þannig að almennt séð virðist umferð út úr höfuðborginni nánast standa í stað í júní miðað við sama mánuð fyrra þótt örlítill samdráttur mælist á báðum stöðum eða 0,1% um Hellisheiði og 0,2% Hvalfjarðargöng .

Þar sem umferð virðist dragast saman á virkum dögum en aukast aftur á móti á föstu- og laugardögum má leiða líkum að því að styttri skreppitúrar út frá höfuðborgarinnar séu að aukast e.t.v. á kostnað lengri ferða og almennarar umferðar.

 

Sólarhringsdreifing:

Á meðfylgjandi mynd má sjá yfirlit yfir það hvernig umferðin dreifist yfir sólarhringinn það sem af er sumri. Af þessu stöplariti má lesa að mesta umferð sé á milli 17:00 og 18:00 á föstudögum en minnst er umferðin frá miðnætti til 07:00 á morgnana. Augljóst má vera af þessu, að ef ökumenn vilja forðast umferð, þá er ekki heppilegt að vera á ferðinni milli kl. 16:00 - 19:00 á föstu- og sunnudögum. En athygli vekur að mesta umferðin á laugardögum er á milli 13:00 - 14:00, en nær ekki sömu hæðum og á föstudögum og sunnudögum.

 

Hellisheiði sólarhringsdreifing í júní 2012

 

Hvalfjörður sólarhringsdreifing júní 2012