Fréttir
  • Klippt á borðann
  • Hreinn Haraldsson vegamálastjóri
  • Innaríkisráðherra fagnar
  • Verðlaun fyrir getraun afhent

Flóaáveita - afmæli og vegslóði

85 ára afmæli áveitunnar, vegslóði tekinn í notkun

19.6.2012

Þann 1. júní sl. var haldin hátíðleg samkoma við flóðgátt Flóaáveitunnar á Brúnastaðaflötum.  Þar var fagnað 85 ára afmæli áveitunnar, en ekki síður var hátíðin haldin til að opna formlega og taka í notkun vegslóða sem liggur frá Ölvisholtsvegi að flóðgáttinni.  Flóahreppur og Áveitufélagið stóðu að vegagerðinni, með stuðningi Vegagerðarinnar. 

 

Við flóðgáttina í Hvítá sem var fyrst opnuð 27. maí 1927 eru upptök Flóaáveitunnar sem var á sínum tíma ein umfangsmesta og dýrasta framkvæmd sem ráðist hafði verið í hér á landi, og merkilegt verkfræðilegt verkefni.  Verkið kostaði um 1 m.kr. á þeim tíma. Vegslóðanum er ætlað að bæta aðgengi ferðafólks og heimamanna að þessum merku mannvirkjum, og fyrirhugað er að setja þar upp skilti sem greina frá sögu framkvæmdanna í máli og myndum.

Þótt gerð vegaslóðans væri ekki stórt verkefni þótti ástæða til að opna veginn formlega með borðaklippingu innanríkisráðherra og vegamálastjóra. Sjá frétt á vef innnaríkisráðuneytisins. Öllum viðstöddum var þetta eftirminnileg kvöldstund í fallegu veðri og haldnar voru ræður og flutt ljóð.  Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, flutti yfirgripsmikið og skemmtilegt ávarp sem lesa má hér.

Að lokum var boðið til kaffisamsætis á Þingborg.  Þar var sett upp keppni þar sem viðstaddir voru beðnir um að giska á það hver kostnaður hefði verið við Flóaáveituframkvæmdir á verðlagi í dag, skrifa upphæð og nafn á miða og setja í lokaðan kassa.  Þann 16. júní sl. voru úrslitin gerð kunn á Selfossi, og sigurvegarinn reyndist vera Svanur G. Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Suðurlandi.  Hann giskaði á 350 mkr., sem var nákvæmlega sú tala sem Guðni Ágústsson, forsvarsmaður hátíðarhaldanna hafði fengið útreiknaða hjá Seðlabanka Íslands!