Fréttir
  • Ný heimasíða opnuð í dag

Ný Via Nordica 2012 heimasíða

fréttir sagðar alla ráðstefnudagana

7.6.2012

Á Via Nordica 2012 ráðstefnunni sem ber yfirskriftina Á krossgötum verða sagðar fréttir jafnóðuim af því sem er að gerast á ráðstefnunni. Opnuð hefur verið ný útgáfa af vefsíður ráðstefnunnar http://www.vianordica.is/ og þar munu 8-9 blaðamenn frá öllum ríkjum Norðurlanda skrifa fréttir.

Ráðstefnan verður haldin dagana 11. til 13. júní eða í næstu viku. Efnisskráin er mjög viðamikil auk þess sem alls verða 54 sýnendur með bás á sýningu ráðstefnunnar. Það verður því mikið um að vera í Hörpu þessa dagana. Plenum-hluti ráðstefnunnar fer fram í Eldborg en hana sækja rúmlega 800 manns.

Sýningin verður opin almenningi frá kl 14:00 þriðjudaginn 12. júní til kl. 17:00. Sjá sýningarskrána hér.

Meðal sýnenda verða verktakafyrirtæki, ráðgjafar, samtök, rannsóknaraðilar og fleiri. Nefna má Rambøll, Nynås, Colas, Vectura, Stark of Sweden og Nyx Hermera Technolities. Íslensku verkfræðistofurnar eru líka fyrirferðamiklar, Verkís, Mannvit, Almenna verkfærðistofan og Efla.

Einnig verður til dæmis Alheimsvegasambandið PIARC með bás, Roadex verkefnið og samband bókasafna vegagerðanna á Norðurlöndum og í Eysrasaltsríkjunum, sem og vegagerðir Danmerkur, Finnlands, Svíþjóðar, Færeyja og Íslands. Tólf tækninefndir NVF sýna einnig.

Á ráðstefnunni verða haldin fjöldi erinda, meðal fyrirlesara verða sænski sagnfræðingurinn Gunnar Wetterberg, Páll Skúlason heimspekiprófessor, Lars Stenquist aðstoðarforstjóri Scania, Elizabeth Deakin prófessor við Berkeley háskólann, Dienesh Sethi frá WHO í Danmörku og jarðfræðingurinn Ari Trausti Guðmundsson.

Innan NVF vinna 16 tækninefndir og á hverju fjögurra ára tímabili halda þær fjölda ráðstefna og málstofa og að lokum kynna þær starfið á Via Nordica ráðstefnunum. Fjallað er um uppbyggingu vega, umferðaröryggi, skipulag í borgum og bæjum, vetrarþjónustu, umhverfismál, aðgengi og yfirborð vega svo nokkuð sé nefnt. Þannig skiptist ráðstefnan í fimm sameiginlega hluta sem fram fara í Eldborginni í Hörpu og í 20 hluta sem fram fara samhliða í fjórum ráðstefnusölum í Hörpu. Þannig að það verður af nógu að taka þessa þrjá daga í júní. Stór hluti ráðstefnunnar fer fram á ensku en það sem fram fer á tungum norrænu ríkjanna verður þýtt jafnóðum á ensku. 

Ráðstefnan hefst á sameiginlegum hluta þar sem fjallað verður um hvernig ákvarðanir eru teknar um vegaframkvæmdir. Yfirskriftin er: Hvar í heiminum finnst almenn skynsemi. Gunnar Wetterberg og Páll Skúlason flytja erindi en í pallborðsumræðum á eftir taka þeir tveir þátt ásamt Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra, Ingemar Skogö fyrrverandi vegamálastjóra sænsku Vegagerðarinnar og Elizabet Deakin prófessor frá Berkeley.