Fréttir
  • Via Nordica 2012 - Á krossgötum

Norræn vegagerðarráðstefna í Hörpu í júní

búist við um 800 manns á ráðstefnuna Via Nordica 2012

25.5.2012

Norræna vegasambandið, NVF, heldur ráðstefnu í Hörpu 11.-13. júní sem ber heitið Via Nordica 2012 - Á krossgötum. Ráðstefnan er árangurinn af fjögurra ára starfi sambandsins. Ísland, undir forystu Vegagerðarinnar, hefur stýrt NVF síðastliðin fjögur ár.

Á ráðstefnunni verða haldin fjöldi erinda, meðal fyrirlesara verða sænski sagnfræðingurinn Gunnar Wetterberg, Páll Skúlason heimspekiprófessor, Lars Stenquist aðstoðarforstjóri Scania, Elizabeth Deakin prófessor við Berkeley háskólann, Dienesh Sethi frá WHO í Danmörku og jarðfræðingurinn Ari Trausti Guðmundsson.

Innan NVF vinna 16 tækninefndir og á hverju fjögurra ára tímabili halda þær fjölda ráðstefna og málstofa og að lokum kynna þær starfið á Via Nordica ráðstefnunum. Fjallað er um uppbyggingu vega, umferðaröryggi, skipulag í borgum og bæjum, vetrarþjónustu, umhverfismál, aðgengi og yfirborð vega svo nokkuð sé nefnt. Þannig skiptist ráðstefnan í fimm sameiginlega hluta sem fram fara í Eldborginni í Hörpu og í 20 hluta sem fram fara samhliða í fjórum ráðstefnusölum í Hörpu. Þannig að það verður af nógu að taka þessa þrjá daga í júní. Stór hluti ráðstefnunnar fer fram á ensku en það sem fram fer á tungum norrænu ríkjanna verður þýtt jafnóðum á ensku. 

Ráðstefnan hefst á sameiginlegum hluta þar sem fjallað verður um hvernig ákvarðanir eru teknar um vegaframkvæmdir. Yfirskriftin er: Hvar í heiminum finnst almenn skynsemi. Gunnar Wetterberg og Páll Skúlason flytja erindi en í pallborðsumræðum á eftir taka þeir tveir þátt ásamt Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra, Ingemar Skogö fyrrverandi vegamálastjóra sænsku Vegagerðarinnar og Elizabet Deakin prófessor frá Berkeley.

Búist er við á níunda hundrað þátttakanda en nú þegar hafa um 750 skráð sig til leiks, auk þess sem á annað hundrað maka fylgja með í förinni til Íslands. Það verður því mikið umleikis í Hörpu þessa daga, því auk fyrirlestrana verður sýning á 1. og 2. hæðinni þar sem 35 sýnendur taka þátt auk vegagerðanna frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Færeyjum og Íslandi. Einnig verða Eystrasaltsríkin með bás á sýningunni og 12 tækninefndir kynna einnig sitt starf á þennan hátt.

 

Allt um ráðstefnuna hér og um NVF.