Fréttir
  • Verðlaunahafar - þriggja tillagna
  • Sýning á tillögum í Ráðhúsinu
  • Verðlaunahafarnir
  • Verðlaunatillagan í Ráðhúsinu
  • Sýning á tillögum í Ráðhúsinu

Frumlegar og djarfar göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa

Vinningstillaga í samkeppni um göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa

4.5.2012

Tillögur í hönnunarsamkeppni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar um göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa og hjólaleið um norðurenda Geirsnefs voru kynntar í dag að viðstöddum þátttakendum og dómnefnd. Sýning á tillögunum hangir uppi í Ráðhúsi Reykjavíkur til 14. maí.

Þegar nafnleynd var aflétt kom í ljós að höfundar vinningstillögunnar voru frá Teiknistofunni Tröð, þau Hans-Olav Andersen og Sigríður Magnúsdóttir, arkitektar. ,,Einfalt en jafnframt frumlegt og djarft form einkennir tillöguna," segir í áliti dómnefndar um verðlaunatillöguna. ,,Styrkur tillögunnar er tvímælalaust einfalt og sterkt burðarform, sem felur í sér nýstárlega nálgun viðfangsefnisins." Dómnefndin reiknar með að mannvirkið geti orðið ákveðið kennileiti og vakið áhuga fólks til útivistar á svæðinu.

Hafist verður handa við verkið sem þarf að bjóða út hið fyrsta en reikna má með að verkinu geti lokið á innan við ári.

Þrjár tillögur komust á annað þrep samkeppninnar og fengu verðlaun og tvær aðrar hlutu viðurkenningu. Allar tillögurnar má skoða í Ráðhúsinu.

Frekari upplýsingar.