Fréttir
  • Dæmi um hvernig ekki á að ferma bíl

Frágangi farms ábótavant og þungabrot

Hvorttveggja of algengt á þessum árstíma

17.4.2012

Nú er hafinn tími áburðarflutninga um allt land. Á undanförnum árum hefur talsvert verið um þungabrot tengt þessum flutningum auk þess sem frágangur farms hefur í mjög mörgum tilfellum verið verulega áfátt.

Á sama tíma og þessir flutningar fara fram er vegakerfið sökum leysinga víða viðkvæmt og í mörgum tilfellum þörf á þungatakmörkunum til verndunar. Mikilvægt er að flutningsaðilar hafi þetta í huga og kynni sér vel þær þyngdir sem leyfðar eru hverju sinni til að komist verði hjá kærum og fjárútlátum vegna sekta.

Sama á við um frágang á farmi. Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um hleðslu, frágang og merkingu farms kemur eftirfarandi fram: "Farm ökutækis skal skorða tryggilega og festa við ökutækið . Þannig skal frá gengið að farmurinn byrgi ekki útsýni ökumanns eða hætta sé á að hann hreyfist til eða falli af ökutækinu og valdi tjóni hvort heldur sem er í kyrrstöðu eða akstri".

Að gefnu tilefni mun umferðareftirlit Vegagerðarinnar á næstunni veita þessum flutningum sérstaka athygli í þeim tilgangi að að fyrirbyggja og fækka brotum með það fyrir augum að tryggja á þann hátt aukið umferðaröryggi og verndum vegakerfisins.

Myndin með fréttinni sýnir hvernig ekki á að ganga frá farmi.

 

Vegagerðina er að finna á

     facebook