Fréttir
  • Fundur framkvæmdastjórnar PIARC
  • Fundur framkvæmdastjórnar PIARC
  • Fundur framkvæmdastjórnar PIARC
  • Fundur framkvæmdastjórnar PIARC

Áhersla á viðhald veganna

umræður á framkvæmdastjórnarfundi PIARC

13.4.2012

Viðhald vegakerfa þjóðríkjanna var eitt að helstu umræðuefnunum á fundi framkvæmdastjórnar PIARC, heimsvegasambandsins, sem haldinn er í Reykjavík 12. - 13. apríl. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri hélt erindi um viðhald íslenska vegakerfisins og lagði jafnfram áherslu á sérstöðu Íslendinga er varðar viðhald og forvarnir vegna náttúruhamfara svo sem eldgosa og flóða. 

Fulltrúar 17 ríkja sitja fundinn og voru allir sammála um mikilvægi þess að sinna viðhaldi vega þannig að fjárfesting sem búið er að leggja í kerfin fari ekki forgörðum. Höfðu allar þjóðirnar af þessu nokkrar áhyggjur.

Um 40 manns sækja fund framkvæmdastjórnarinnar frá Frakklandi, Bretlandi, Þýskalandi, Suður-Kóreu, Ástralíu, Bandaríkjunum, Mexíkó, Argentínu, Búrkína Fasó, Belgíu, Litháen, Íslandi, Austurríki, Kanada, Japan, Spáni og Ítalíu. Hreinn Haraldsson er fulltrúi Íslands í framkvæmdastjórninni auk þess að vera einnig fulltrúi hinna norrænu ríkjanna.

Erindi um viðhald vega fluttu fulltrúar Litháen, Frakklands, Japan og Þýskalands auk Íslands. Allir höfðu þá sömu sögu að segja að í núverandi efnahagsþrengingum dygðu framlög til viðhalds vega ekki til að sinna viðhaldi svo sem þarf að gera til að varðveita fjárveitinguna. Vegagerðin hefur lagt á það áherslu nú síðustu misseri við gerð samgönguáætlunar að skera sem minnst niður í viðhaldi til að forða því að stórir vegakaflar hreinlega eyðileggist í framtíðinni þannig að leggja þurfi þá að nýju. Aðrar þjóðir hafa haft uppi svipaðar röksemdir og Íslendingar og leggja áherslu á mikilvægi þessa.