Fréttir
  • Hreinn Haraldsson vegamálastjóri kynnir Vegagerðina á Íslandi
  • PIARC fundur framkvæmdastjórnar í Reykjavík
  • Hreinn Haraldsson vegamálastjóri kynnir Vegagerðina á Íslandi
  • Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði fundinn

Heimsvegasambandið á fundi í Reykjavík

framkvæmdastjórn PIARC

12.4.2012

Framkvæmdastjórn PIARC, alþjóða- eða heimsvegasambandsins, heldur árlegan fund sinn í Reykjavík dagana 12. og 13. apríl. Um 40 manns sitja fundinn þar sem línurnar eru lagðar fyrir starfið á næstunni, á rannsóknar- og þróunarvinnu sambandsins. PIARC heldur úti fjölda tækninefnda sem sinna rannsóknavinnu í vegagerð um allan heim. Fjórða hvert ár er haldin stór ráðstefna þar sem nefndirnar fara yfir sín störf. Ráðstefna var síðast haldin haustið 2011 í Mexíkó.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði fundinn í morgun (12. apríl), bauð fundarmenn velkomna til Íslands og sagði sambandið vinna mikilvægt og faglegt starf. Hann sagði ráðstefnuna í Mexíkó síðastliðið haust vera gott dæmi um yfirgripsmikla og faglega ráðstefnu þar sem fjallað væri um allar hliðar vegagerðar.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri kynnti íslensku Vegagerðina og aðstæður á Íslandi. Hreinn er formaður Norræna vegasambandsins (NVF) sem er byggt á fyrirmynd PIARC. Ísland leiðir það starf í fyrsta skipti í 75 ára sögu NVF. Hann er einnig fulltrúi allra norrænu ríkjanna í framkvæmdastjórn PIARC.

Hreinn mun einnig fjalla sérstaklega á fundi frankvæmdastjórnarinnar um viðhald vegakerfisins.

Auk þess að halda stóra ráðstefnu með 4-5000 þátttakendum, fjórða hvert ár, er einnig á fjögurra ára fresti haldin vetrarráðstefna þar sem á sama hátt er fjallað um vetrarviðhald vega.

Næsta PIARC vetrarráðstefna verður haldin í Andorra 2014 og svo verður ráðstefna í Kóreu 2015.

Á vettvangi norræna vegasambandsins verður svo haldin ráðstefna hér í Reykjavík í sumar, þar munu tækninenfndir NVF sem eru 16 fjalla um sitt fjögurra ára starf. Reiknað er með um 1000-1200 manns á þá ráðstefnu sem haldin verður í Hörpu í júní. Norræana ráðstefnan nefnist Via Nordica 2012 með yfirskriftina að þessu sinni  Á krossgötum.