Fréttir
  • Umferðin 2005 - 2011
  • Spániðurstöður

Miklu minni umferð í janúar á Hringveginum

minnsta umferð í janúar í sjö ár

2.2.2012

 

 

Umferðin í nýliðnum janúar dróst saman um ríflega 10 prósent miðað við sama mánuð fyrir ári síðan. Er þetta mesti samdráttur milli janúarmánaða frá því að þessi samanburður hófst.

 

Búast mátti við samdrætti í umferðinni vegna þess að veðurfar og færð voru slæm í mánuðinum. En þessi mikli samdráttur er hins vegar óvæntur þrátt fyrir það og einnig sérstaklega þegar horft er til þess að milli janúarmánaða 2010 og 2011 dróst umferð saman um 7,6 prósent, á þessum sömu 16 mælipunktum á Hringveginum, sem á þeim tíma var mesti samdráttur sem Vegagerðin hafði mælt.

 

Samdráttur milli janúarmánaða 2010 og 2011 var undanfari eins mesta samdráttar sem mælst hefur í þessum 16 mælipunktum á ársgrundvelli, sjá fyrri fréttir þar um. Hvort þessi mikli samdráttur nú er vísbending um enn eitt samdráttarárið í umferðinni skal ósagt látið en vissulega gefa þessar niðurstöður tilefni til að hugleiðinga í þá veru.

 

Eins og taflan hér fyrir neðan sýnir er samdráttur í umferð á öllum landssvæðum og enn dregst umferð mest saman á Suðurlandi eða rúmlega 21% en minnst á Norðurlandi eða rúmlega 5%.

 

 

 

Samanburður janúar 2012

 

Til að setja þennan samdrátt í samhengi við umferðartölur sést, á meðfylgjandi ítarefni, að leita þarf allt til ársins 2005 til að finna jafn litla umferð í janúar. M.ö.o. hefur umferð ekki verið minni í janúar í 7 ár.

 

Vegna þessa óvenjulega ástands sem var í janúar er erfitt að spá fyrir um umferðina út árið og slík spá gæfi þess vegna mögulega ekki rétta mynd af þróuninni. Birting spárinnar út árið verður því ekki reiknuð út að sinni.

 

Meðfylgjandi stöplarit sýnir hvernig skammtímaspár Vegagerðarinnar hafa gengið eftir frá árinu 2005. Af þessu riti má lesa að ÁDU-spá í janúar hafa verið allt frá 4,8% yfir, niður í 5,9% undir og allt þar á milli eins og að standast fyllilega þ.e.a.s. árin 2006 og 2007. Eðli málsins samkvæmt eykst nákvæmni spánna eftir því sem líður á árið. En hafa ber í huga að á fyrri hluta árs skapast stór vikmörk af tíðarfarinu og einnig staðsetningu páska.

 

Spániðurstöður

 

Að lokum er rétt að minna á að þetta eru grófrýndar mæliniðurstöður sem gætu tekið breytingum síðar við ítarlegri yfirferð.