Fréttir
  • Snjómoksturstæki á ferðinni 10. janúar
  • Snjómokstur á Sandskeiði

Þungir dagar í þjónustunni

Gríðarlegt álag í vetrarþjónustunni þessa dagana

13.1.2012

Vetrartíðin hefur ekki farið framhjá nokkrum manni þessa síðustu daga. Hjá Vegagerðinni verða starfsmenn áþreifanlega varir við veturinn þegar veðrið hamast sem mest. Og það gengur þá stundum mikið á.

Á þriðjudaginn 10. janúar var snjómoksturstækjum á vegum Vegagerðarinnar ekið næstum 18 þúsund kílómetra samanlagt. Svo dæmi sé tekið. Þrettán sinnum hringinn í kringum landið á einum sólarhring. Snjór var mokaður og á sama tíma var nærri 206 tonnum af salti dreift. Um 60 tonnum af pækli og um 64 tonnum af sandi.

Af þeim 18 þúsund km sem eknir voru var salti dreift á nærri 4600 km. En á suma hluta vegakerfisins er margsaltað og sumsstaðar eru akreinar fleiri en ein. Í þessa vinnu fóru á þessum eina sólarhring 567 klukkustundir. Eða um 24 sólarhringar; um eða nærri tvær heilar 40 stunda vinnuvikur, þann daginn.

Í haust, eða frá 1. október og út desember voru snjómoksturstækin ekin um 570 þúsund km. Það jafngildir 14 ferðum umhverfis jörðina. nærri sjö þúsund tonn af salti hafa farið í hálkuvarnirnar og meira en annað eins af pækli og sandi. Nærri 16 þúsund tonn. Af þessum 570 þúsund km voru um 172 þúsund km hálkuvarðir og það tók 16 þúsund klukkustundir samanlagt.

Rétt er að geta þess að þetta byggir á órýndum gögnum og gætu þessar tölur því eitthvað breyst.

 

Myndin með fréttinni er tekin úr ferilvöktunarkerfi Vegagerðarinnar og sýnir snjómoksturstækin sem voru á ferðinni á þeim tímapunkti sem myndin var tekin.