Fréttir
  • Kveðja frá Vegerðinni
  • Það verður víða hált næstu daga

Hálka og flughálka víða á landinu

vegfarendur hvattir til að fara varlega

22.12.2011

Margir verða á ferðinni fram til jóla á vegum landsins. Vegagerðin hvetur ökumenn til að fara að ítrustu gát því víða er annaðhvort hált eða flughált. Það má sá í tilkynningum um færð og ástand hér fyrir neðan þessa frétt.

Sé tekið mið af veðurspá, sjá neðar í fréttinni, og þeirri staðreynd að þjónustu Vegagerðarinnar lýkur með fyrra fallinu á aðfangadag úti á landi þá er álitlegra fyrir þá vegfarendur sem á því hafa tök að ferðast frekar á Þorláksmessu en aðfangadag, þá er full þjónusta og skaplegra veður.

Vegagerðin óskar vegfarendum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Veðurspá, unnin fimmtudaginn 22. desember kl. 10:40:

Þorláksmessa

Hvöss NV-átt austantil með éljum fyrst í fyrramálið.  Annars skaplegt veður framan af degi.  Fremur hæg V-átt, vægt frost og mestu éljalaust á landinu.  Þegar líður á daginn er reiknað með éljum vestan- og suðvestanlands og 8-13 m/s.

Aðfangadagur

Framan af aðfangadegi er spáð lægð nokkuð hratt norðaustur yfir landið með úrkomu um land allt.  Á láglendi suðvestan-, sunnanlands og austur á firði er reiknað með rigningu.  Annars staðar verður krapahríð eða snjókoma.   Kólnar með éljagangi undir kvöldið, einkum um landið vestan- og norðanvert.  Allhvasst verður lengst af dagsins, en stormur af SV suðaustan- og austanlands .