Fréttir
  • Höfðuborgarsvæðið uppsafnað nóvember 2011
  • Höfuðborgarsvæðið samanlagt nóvember 2011

Heldur minni samdráttur í nóvember á höfuðborgarsvæðinu

umferðin 0,9 prósentum minni en í fyrra

7.12.2011

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu, þremur mælisniðum, dróst saman um 0,9 prósent í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra. Þetta er minni samdráttur en varð í umferðinni í október en næstum sá sami og á 16 talningarstöðum á Hringveginum í sama mánuði.

Reikna má með að samdrátturinn í ár á höfuðborgarsvæðinu verði um 2,5 prósent og að umferðin verði heldur meiri en hún var árið 2006. Samdrátturinn er því minni á höfuðborgarsvæðinu en á Hringveginum þar sem stefnir í að umferðin verði nokkru minni en hún var árið 2006.

Milli mánaða 2011 og 2010:Svipaður samdráttur varð í akstri innan höfuðborgarsvæðisins, milli nóvember mánaða, og á Hringvegi eða 0,9%. En 1% samdráttur varð á Hringvegi milli sömu mánaða sjá eldri frétt.

Þetta er mun minni samdráttur en á milli október mánaða en þá varð hann 3,2%. Í spám Vegagerðarinnar hafði verið reiknað með meiri samdrætti, en raunin varð, milli nóvember mánaða.

Umferð dróst saman um 5% á Hafnarfjarðarvegi og 1,3% á Vesturlandsvegi en óvænt 1,5% aukning varð um talningastað á Reykjanesbraut við Dalveg.

Það sem af er árinu 2011 miðað við árið 2010:

Þegar nóvember er liðinn hefur akstur dregist saman um 2,4%, frá áramótum, í mælisniðunum þremur. Er þetta heldur meiri samdráttur en um svipað leiti í fyrra, en þá hafði akstur dregist saman um 1,3% milli áranna 2010 og 2009. Milli áranna 2009 og 2008 varð hins vegar meiri samdráttur á sama tíma eða 3,2%, enda árið 2008 met ár í akstri í mælisniðunum innan höfuðborgarsvæðisins.

Ekki hefur verið ekið minna um mælisniðin þrjú síðan árið 2006.

Talnaefni.  

Horfur út árið 2011:

Nú er því spáð að desember 2011 verði 3,6% undir desember 2010, í akstri. Að því gefnu þá stefnir í 2,5% samrátt í árslok 2011 miðað við árið 2010. Akstur hefur ekki dregist meira saman milli ára síðan milli áranna 2008 og 2009 en þá dróst aksturinn saman um 3,1% milli ára. Þetta myndi samsvara 6,6% samdrætti í akstri um þessi þrjú mælisnið frá árinu 2008, að telja.