Fréttir
  • Frá bás Vegagerðarinnar

Alþjóðleg ráðstefna um vegamál var haldin 26. - 30. september

4.10.2011

Alþjóðleg ráðstefna um vegamál, á vegum PIARC (Permanent International Association of Road Congresses),  var haldin í 24. sinn í Mexíkóborg 26. - 30. september síðastliðinn.

Ráðstefnan er haldin á fjögurra ára fresti og sækja hana kringum þrjú þúsund manns. Dagskráin er mjög fjölþætt og er fjallað um hönnun vegaframkvæmda, fjármögnun og stjórnun verkefna, öryggismál vegakerfa, um öryggi í jarðgöngum, viðhald og þjónustu á vegum, umferðarstjórnun, samgöngur og skipulag og umhverfismál í mjög víðu samhengi.

Fjallað er um flest efnin í fyrirlestrum þar sem gefinn er kostur á umræðum og fyrirspurnum en einnig er boðið uppá vinnustofur, heimsóknir og spjaldasýningar. Þá sýna fjölmargir aðilar, bæði opinberir og úr einkageiranum ýmiss konar efni um vegagerð, tækni og búnað sem tengist samgöngumannvirkjum.

Vegagerðin leikur stórt hlutverk á ráðstefnunni og er meðal annarra Norðurlanda á stórum sýningarbás. Framlag Vegagerðarinnar snýst um uppbyggingu og rekstur vegakerfis þar sem náttúruöfl eru ógnvaldur og er sýnt með myndum og texta hvernig tekist er á við þetta verkefni í samvinnu við almannavarnir og aðra opinbera aðila sem þar koma við sögu. Tengist efnið að miklu leyti nýlegum eldgosunum og er þannig sýnd 40 mínútna löng mynd um gosið í Eyjafjallajökli.

Sjá nánar í frétt Innanríkisráðuneytisins