Fréttir
  • Undirskrift viljayfirlýsingar 22. september 2011
  • Undirskrift viljayfirlýsingar 22. september 2011

Viljayfirlýsing um eflingu almenningssamgangna

milli ríkisins og samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu

22.9.2011

Innanríkisráðherra, fjármálaráðherra, formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúi Vegagerðarinnar skrifuðu í dag, 22. september, undir viljayfirlýsingu um að vinna að samningi um 10 ára tilraunaverkefni um almenningssamgöngur. 

Samningurinn á að liggja fyrir í haust og munu byggja á samningsdrögum samgönguráðs vegna samgönguáætlunar sem lögð verður fyrir Alþingi í haust. Þar er miðað við að verja aukalega einum milljarði króna á ári í tíu ár til eflingar almenningssamgangna á svæðinu.

Undir viljayfirlýsinguna skrifuðu Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri og formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Eiríkur Bjarnason forstöðumaður hjá Vegagerðinni.

Í viljayfirlýsingunni kemur fram að "aðilar þessarar yfirlýsingar, fjármálaráðuneytið, innanríkisráðuneytið, Vegagerðin og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, eru sammála um að vinna að samningi um uppbyggingu og rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, markvissar stuðningsaðgerðir og frestun stórra vegaframkvæmda í 10 ára tilraunaverkefni. Samningurinn taki einnig til fleiri samvinnuverkefna, t.d. um skipulag samgangna á höfuðborgarsvæðinu, sem skilgreind eru í skýrslu starfshóps samgönguráðs um höfuðborgarsvæðið og til hugmynda um grunnnet hjólreiðastíga. Þá skal einnig litið til almenningssamgangna sem tengja höfuðborgarsvæðið við nágrannasveitarfélögin."

Sjá einnig fréttatilkynningu innanríkisráðuneytisins.