Fréttir
  • Heildarumferð á 6 talningarstöðum

Nýjustu tölur af helgarumferð

4.7.2011

Heldur minni umferð mældist nú um ný afstaðna helgi, sem var fyrsta helgin í júlí, miðað við sömu helgi árið 2010 í sex mælipunktum á Hringvegi út frá Höfuðborgarsvæðinu.  Nam samdrátturinn samanlagt um 11%.   
Umferðin dróst saman um  tæp 18% austur fyrir fjall en mun minna í norður eða rétt rúmlega 2%.

Nokkrar af skýringum á því að umferð dróst minna saman í norður, gætu verið að um síðustu helgi var landsmót hestamanna í Skagafirði og Pollamótið í fótbolta á Akureyri. Einnig var veðurspáin fyrir Norðurland mun hagstæðari en fyrir Suðurlandið.

Á einstökum stöðum dróst umferð, um Hellisheiði, saman um 18% en umferð um Hvalfjarðargöng varð svipuð og fyrir árið síðan eða 0,3% meiri.  

Umferðin um síðustu helgi var einnig talsvert minni en um helgina þar á undan, sem var síðastu helgin í júní, samanber meðfylgjandi stöplarit. Munurinn var rúmlega 8%.

Eins og meðfylgjandi stöplarit sýnir hefur helgarumferðin, í öllum tilvikum, verið minni það sem af er sumri, í 6 mælipunktum á Hringvegi, en samkvæmt meðaltali síðustu ára.  Að jafnaði er helgarumferðin nú í sumar 7,3% minni en hún var á síðasta ári, fyrir sömu mælipunkta.
Líklegt verður að telja að veðurfar hafi meiri áhrif á helgarumferðina, en aðra daga og hefur kaldur júní líklega haft sitt að segja.  
Séu þessar niðurstöður bornar saman við niðurstöður frá 16. lykilteljurum gefa þær e.t.v. vísbendingar um að meira hafi dregið úr umferð um helgar, nú í sumar á Hringvegi en um aðra daga.

Heildarumferð um helgar á 6 talningastöðum í nágrenni Höfuðborgarsvæðis