Fréttir
  • Vegrið tilraunaverkefni
  • Vegrið tilraunaverkefni
  • Vegrið tilraunaverkefni
  • Vegrið tilraunaverkefni

Tilraun með vörn fyrir bifhjólafólk

Vegagerðin og Sniglarnir í samstarfi

24.6.2011

Vegfarendur um Hafnarfjarðarveginn sunnan Kópavogs hafa tekið eftir viðbótum á vegriðunum, gulum og gráum. Um er að ræða undirakstursvarnir og eru fyrst og fremst hugsaðar vegna bifhjólafólks. Verið er að skoða tvær tegundir með tilliti til íslenskra aðstæðna.

Sniglarnir og Vegagerðin vinna að þessari könnun saman en til hennar fékkst styrkur úr Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. 

Annarsvegar er um að ræða áberandi gult plast og hinsvegar grátt stál. Staðsetning er valin meðal annars vegna þess að þarna hafa nýlega orðið bifhjólaslys.

Á undanförnum árum hefur staðið yfir virkt samstarf milli Sniglanna, Bifhjólasamtaka Lýðveldisins og Vegagerðarinnar með það að markmiði að tryggja betur umferðaröryggi bifhjólamanna..

Fjöldi bifhjólamanna í almennri umferð hefur aukist verulega síðustu árin og á eflaust eftir að aukast enn meira á næstu árum, ekki síst vegna umhverfissjónarmiða og hagkvæmnissjónarmiða í kjölfar hækkandi eldsneytisverðs og kreppunnar. Bifhjól eyða að jafnaði aðeins broti af eldsneyti fólksbíla á hvern kílómetra og eiga að vera að ýmsu leyti þægilegri fararmáti og fljótlegri í þéttri borgarumferð, auk þess að þurfa ekki eins mikið rými undir bílastæði.

Unglingar komast fyrr á göturnar á léttum bifhjólum, t.d. vespum, heldur en á bílum og er því mikilvægt að tryggja öryggi þeirra og meðvitund um hættur umferðarinnar strax í upphafi vegferðar þeirra. Sniglarnir hafa sjálfir unnið að kynningum, fræðslu og áróðri til þess að efla umferðaröryggi og er það mjög gott framtak og hefur skilað martækum árangri.

Upplýsingamiðlun er mjög gagnlegt fyrir báða aðila. Benda má á að einfaldir hlutir í augum bílstjóra, eins og sópun lausamalar, hreinsun vegamóta og frágangur vegriða væri gríðarlega mikilvæg umferðaröryggisleg aðgerð fyrir bifhjólafólk. Reiknað er með að samstarf Vegagerðarinnar og Sniglanna eflist á næstu árum.