Fréttir
  • Héðinsfjörður meðalumferð
  • Bolungarvíkurgöng og Óshlíð

Mikil umferð um nýju göngin

umferðin stendur undir væntingum í Bolungarvíkurgöngum og Héðinsfjarðargöngum

22.6.2011

Þrátt fyrir almennan samdrátt í umferðinni stendur umferð um Bolungarvíkurgöng og Héðinsfjarðargöng undir þeim væntingum sem til þeirra voru gerðar.

Umferðin það sem af er ári var um 6 prósentum meiri um Bolungarvíkurgöng en um Óshlíðina á sama tímabili í fyrra.

Þá fóru að meðaltali um 470 bílar á sólarhring um Héðinsfjarðargöng á fyrri hluta árs en meðalumferðarspá Vegagerðarinnar, á sínum tíma, gerði ráð fyrir ÁDU um 350 bílum/sólarhring, við opnun ganganna. Ekki þótti ástæða til að breyta þeirri spá þótt opnun ganganna hefði tafist.  

Þegar árið er rétt tæplega hálfnað og tveir umferðarmestu mánuðir ársins framundan, þá hefur meðalumferð um Bolungarvíkurgöng verið 736 (bílar/sólarhring) en það er um 6 prósentum meiri umferð en um Óshlíð fyrir sama tímabil, árið 2010. Segja má að væntingar hafi verið þær að svipuð umferð færi um Bolungaríkurgöng og áður fóru um Óshlíð, sem er raunin.

 

Það má því segja að orsökuð umferð sé um 6 prósent, á þessum stað. Orsökuð umferð er það sem Vegagerðin kallar þá umferð sem orsakast eingöngu af bættum vegasamgöngum, milli tveggja skilgreindra svæða. Ekki er oft sem Vegagerðin fær svona gott tækifæri til að mæla hana, með svo afgerandi hætti.

Alla jafna er 6 prósent orsökuð umferð í lægri kantinum, en þá ber að líta til þess að óverulega vegstyttingu er að ræða og er sú stytting hafin upp af minni hámarkshraða, sem leyfður er um göngin en leyfður var um Óshlíðina. Þannig að vegbæturnar hér felast fyrst og fremst í öruggari samöngum á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar.

 

Meðfylgjandi línurit sýnir þróun umferðar um Bolungarvíkurgöng það sem af er ári, borið saman við sama tímabil árið 2010, um Óshlíð.

 

Bolungarvíkurgöng og Óshlíðin 

 

Umferð um Héðinsfjarðargöng var að meðaltali um 470 (bílar/sólarhring), um bæði göng, fyrir sama tímabil. Örlítill munur er á umferð um göngin tvö þ.e.a.s. 4 prósenta meiri umferð er um göngin Siglufjarðarmegin.

Hönnunarforsendur ganganna voru 350 (bílar/sólarhring). Það má því segja að tæplega 35 prósent meiri umferð er um göngin, það sem af er ári, en hönnunarforsendur gerðu ráð fyrir.

Á meðfylgjandi línuriti má sjá hvernig meðalumferð um Héðinsfjarðargöng hefur þróast, það sem af er ári.

 

Héðinsfjörður meðalumferð