Fréttir
  • Framkvæmdir 2011

Framkvæmt fyrir 6 milljarða 2011

Ekki eru mörg verkefni sem bíða þess að verða boðin út á næstu mánuðum

21.6.2011

Athygli hefur vakið hversu lítið hefur verið auglýst af útboðum hjá Vegagerðinni að undanförnu. Ástæðan er fyrst og fremst sú að stór hluti þeirrar upphæðar sem er til ráðstöfunar í ár til nýframkvæmda, tæpir 6 milljarðar króna, fer til verkefna sem boðin voru út á síðasta ári eða jafnvel fyrr.

Það er frekar regla en undantekning að öll stærri vegagerðarverk eru unnin á tveimur og jafnvel þremur árum.

Stærstu verkefni sem unnið er að núna og voru boðin út fyrir síðustu ármót eru:

Suðurlandsvegur vestan Litlu kaffistofu

Undirgöng við Grænás

Bræðratunguvegur um Hvítá

Suðurstrandavegur: Ísólfsskáli - Herdísarvík

Suðurstrandavegur: Herdísarvík - Þorlákshöfn

Vesturlandsvegur í Mosfellsbæ

Snæfellsnesvegur um Haffjarðará

Vestfjarðavegur um Skálanes

Vopnafjarðarheiði

Dettifossvegur

Síðan eru fjölmörg smærri verk um allt land við endurbætur á tengivegum, héraðsvegum, landsvegum, styrkvegum, reiðvegum, girðingum og smábrúm. Þá má nefna endurbætur á rafbúnaði Breiðadals- og Botnsheiðarganga, smærri verk á höfuðborgarsvæðinu, umferðaröryggisaðgerðir víða á landinu, snjóflóðavarnir á Ólafsfjarðarvegi og einnig má taka fram að undirbúningur að verkefnum næstu ára er fjármagnaður af stofnkostnaði.

Ekki eru mörg verkefni sem bíða þess að verða boðin út á næstu mánuðum. Vonast er til að hægt verði að bjóða út töluvert langan kafla af Vestfjarðavegi, Eiði - Kjálkafjörður, nú í haust, en það verk er í umhverfismatsferli og samningar standa yfir við landeigendur. Þá standa einnig yfir viðræður við landeigendur við Strandaveg í botni Steingrímsfjarðar, en reiknað hefur verið með að það verk færi í gang á árinu. Undirgöng við Álverið í Straumsvík eru í skipulagsferli. Að lokum er rétt að taka fram að búist er við útboði Vaðlaheiðarganga á næstu vikum.