Fréttir
  • Norðausturvegur

Hæstiréttur dæmir Vegagerðinni í hag

í máli Ístaks hf vegna Norðausturvegar um Tjörnes

27.5.2011

Hæstiréttur sýknaði þann 26. maí Vegagerðina af kröfu Ístaks hf sem krafðist ríflega 234 milljóna króna þar sem kostnaður við vinnslu í bergi hefði reynst mum meiri en vænta mátti af útboðsgögnum við vegagerð á Tjörnesi. Vegagerðin hélt því fram alls ekki hefði mátt gera ráð fyrir því að berg væri í öllum skeringum auðsprengjanlegt með venjulegum aðferðum. Þvert á móti mátti hann ráða af lestri útboðsgagna að búast mætti við erfiðleikum við sprengingar eins og raunin varð.

Sýknað var á grundvelli þess hversu seint Ístak hf gerði fyrirvara um þetta og hefði því fyrirgert rétti sínum til frekari greiðslna.

Útdráttur Hæstaréttar:

Í hf. sá um að leggja veg fyrir V í kjölfar útboðs. Í hf. taldi sig hafa orðið fyrir verulegum kostnaði umfram það sem vænta mátti af útboðsgögnum og höfðaði mál gegn V vegna þessa. Í dómi Hæstaréttar kom fram að upphafleg hönnun verksins bæri með sér að V hefði gefið sér þá forsendu að berg sem þurfti að fjarlægja vegna vegagerðarinnar hefði verið annars eðlis en síðar kom í ljós. Af útboðsgögnunum, og jarðfræðiskýrslu sem þeim fylgdi, hefði mátt ráða að einungis lítill hluti þess bergs sem átti að fjarlægja væri erfiður viðfangs. Vegna ástands bergsins hefði aftur á móti ekki verið unnt að beita þeirri aðferð sem útboðsgögnin gerðu ráð fyrir nema að takmörkuðu leyti. Þess í stað hefði orðið að losa bergið með öðrum aðferðum og hefði Í hf. ekki haft ástæðu til að ætla að slíkir erfiðleikar mættu honum. V var talin bera ábyrgð á því að útboðsgögnin voru villandi að þessu leyti. V var ekki talin hafa sannað að erfiðleika Í hf. mætti rekja til þess að röngum búnaði eða tækni hefði verið beitt eða verkstjórn verið áfátt. Aftur á móti var fallist á með V að verulega hefði skort á að áfrýjandi gerði tafarlaust fyrirvara um rétt sinn til frekari greiðslna úr hendi V. Ekki hefðu verið fyrir hendi ástæður sem réttlættu að það var dregið svo lengi sem raunin varð. Var því talið að Í hf. hefði fyrirgert rétti sínum til frekari greiðslna frá V með tómlæti.

 

Allur dómurinn ástamt dómi í héraði.